Erlent

Leitin að tvífara Madeleine svívirðileg

Evening Standard birti myndina af stúlkunni sem líkist Madeleine.
Evening Standard birti myndina af stúlkunni sem líkist Madeleine.
Talsmaður Gerry og Kate McCann gagnrýnir harkalega fyrirsætuskrifstofu sem leitar að tvífara Madeleine. Hann segir leitina óskammfeilna og móðgandi. Breska dagblaðið Evening Standard birti mynd af stúlkunni sem fyrirsætuskrifstofa Juliet Adams valdi úr hópi umsækjenda.

Samkvæmt fréttum telur Adams að hin þriggja ára Kelsy Lynn Kudla gæti þénað hundruð milljóna á því að leika Madeleine í Hollywoodkvikmynd. Adams ver ákvörðun sína fyrir leitinni og segir hana hluta af afþreyingarbransanum. Á vefsíðu sinni auglýsir hún barnafyrirsætur frá fæðingu til 12 ára aldurs og segir foreldrum: „Hér er tækifærið til að koma barninu þínu í fyrirsætu-og hæfileikaiðnaðinn - og jafnvel að hefja nýjan starfsframa fyrir þig og barnið þitt."

Clarence Mitchell talsmaður McCann hjónanna lýsir aðferðum fyrirtækisins sem „svívirðilegum, særandi og móðgandi, bæði fyrir foreldrana og Madeleine." Hann sagði fréttavef Sky að um væri að ræða græðgi fyrirtækisins.

Mitchell sagði ennfremur að Adams hefði ekki leitast eftir samþykki McCann hjónanna. En hann bætti því við að því hefði verið hafnað hefði hún óskað eftir því.

Adams segist vilja að stúlkan sem er amerísk, leiki í sviðsetningu atviksins fyrir breska rannsóknarfréttaþáttinn Crimewatch.

Fyrr í vikunni staðfesti Mitchell að hann hefði fundað með stóru kvikmyndafyrirtæki sem vill gera mynd um sögu McCann hjónanna. Hjónin segja að þau hafi aðeins íhugað möguleikann á gerð heimildamyndar um dóttur þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×