Íslenski boltinn

Launakostnaður KSÍ næststærsti útgjaldaliðurinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Í dag var gefin út ársreikningur KSÍ og rekstraráætlun fyrir 2008 hjá Knattspyrnusambandi Íslands.

Tveir kostnaðarliðir eru langsamlega stærstir hjá sambandinu. Annars vegar kostnaður vegna A-landsliðs karla og hins vegar launakostnaður KSÍ.

Launakostnaður sambandsins nam rúmum 86 milljónum króna fyrir árið 2007. Það er gert ráð fyrir því að sú tala hækki í tæpar 100 milljónir fyrir árið 2008. Samkvæmt því verður launakostnaður KSÍ stærsti útgjaldaliður sambandsins á núverandi ári.

Þar að auki var skrifstofu- og nefndarkostnaður fyrir árið tæpar 55 milljónir króna. Gert er ráð fyrir svipaðri upphæð fyrir þetta ár. Alls var því skrifstofu- og stjórnunarkostnaður 155 milljónir króna.

Átján manns eru skráðir starfsmenn hjá KSÍ auk þess sem aðalstjórn sambandsins telur níu manns.

En stærsti útgjaldaliðurinn á síðasta ári var A-landslið karla en kostnaður við rekstur þess nam rúmum 90 milljónum króna. Gert er ráð fyrir öðru eins árið 2008.

Kostnaður við A-landslið kvenna nam tæpum 26 milljónum á síðasta ári en gert er ráð fyrir að sú upphæð hækki upp í 32 milljónir á þessu ári.

Kostnaður við yngri landsliðin nam allt frá átta upp í sautján milljónum króna á hvert landslið.

Alls námu rekstrargjöld 508 milljónum en rekstrartekjur 483 milljónir. Þar af komu 239 milljónir í styrkir og framlög og 129 milljónir í tekjum af sjónvarpsrétti.

Heildartekjur KSÍ samstæðunnar voru 658,9 milljónir kr. og heildargjöld voru 592,3 milljónir kr. Hagnaður varð því 66,6 milljónir kr.

Heildartekjur samstæðunnar voru um 25% umfram áætlun en rekstrargjöldin voru um 13% umfram áætlun.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×