Íslenski boltinn

Kosið um fjögur sæti í stjórn KSÍ

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Halldór B. Jónsson lætur af sæti sínu í stjórn KSÍ eftir áralangt starf fyrir sambandið.
Halldór B. Jónsson lætur af sæti sínu í stjórn KSÍ eftir áralangt starf fyrir sambandið. Mynd/Róbert

Fimm hafa boðið sig fram í þau fjögur sæti sem eru laus í stjórn Knattspyrnusambands Íslands.

Ársþing KSÍ fer fram á morgun í höfuðstöðvum KSÍ en ekki er kosið um formann sambandsins í ár. Formaður er kjörinn til tveggja ára í sinn og var Geir Þorsteinsson kjörinn formaður í fyrra.

Af þeim fjórum sem ganga úr stjórn KSÍ í ár gefa þrír kost á sér til endurkjörs. Aðeins Ástráður Gunnarsson frá Reykjanesbæ gefur ekki kost á sér á nýjan leik.

Ingibjörg Hinriksdóttir, Kópavogi, Jón Gunnlaugsson, Akranesi og Lúðvík S. Georgsson, Reykjavík gefa kost á sér á nýjan leik en Jón er ritari stjórnar og Lúðvík varaformaður hennar.

Þar að auki gefa þeir Björn Guðbjörnsson frá Reykjavík og Rúnar Vífill Arnarson frá Keflavík kost á sér til stjórnarsetu.

Þá hefur Halldór B. Jónsson ákveðið að draga sig úr stjórn KSÍ vegna veikinda. Hann hefur lengi gegnt embætti varaformanns stjórnarinnar.

Kosið verður í sæti hans til eins árs og hefur Þórarinn Gunnarsson frá Reykjavík einn boðið sig fram í þeirri kosningu.

Á hverju ársþingi er kosið um aðalfulltrúa landsfjórðungunna og hafa allir þeir sem nú gegna því embætti gefið kost á sér til áframhaldandi starfa.

Eins árs kjörtímabili varamanna í aðalstjórn KSÍ lýkur nú og verður kosið á ný á ársþinginu í þau sæti. Jóhannes Ólafsson frá Vestmannaeyjum, Kjartan Daníelsson og Þórarinn Gunnarsson frá Reykjavík eru fráfarandi varamenn og bjóða sig aftur fram til áframhaldandi setu auk Sigvalda Einarssonar frá Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×