Frank Bruno, fyrrum hnefaleikakappi, segist finna til með Paul Gascoigne eftir að þessi fyrrum enski landsliðsmaður var handtekinn fyrir undarlega hegðun á hóteli.
Síðasti atvinnumannabardagi Frank Bruno var gegn Mike Tyson. Síðar viðurkenndi hann að hafa verið djúpt sokkinn í kókaínneyslu.
„Ég vorkenni honum," sagði Bruno um Gascoigne sem var handtekinn þar sem grunur lék á að hann væri haldinn geðveilu. Hann dvelur nú á sjúkrahúsi.
„Hann verður að fá sömu meðhöndlun og aðrir sjúklingar í hans stöðu. Ég skora á hann að taka upp heilbrigt líferni því lífið er stutt," sagði Bruno sem segist viljugur til að aðstoða Gascoigne ef hann óski eftir því.