Íslenski boltinn

Aukinn styrkur frá FIFA í íslenskan fótbolta

Elvar Geir Magnússon skrifar
Sepp Blatter.
Sepp Blatter.

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, og Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri sambandsins, funduðu í dag með Sepp Blatter forseta FIFA. Þar var meðal annars rætt um aukið fjármagn frá FIFA í íslenskan fótbolta.

„Við ræddum ýmis mál sem að okkur snúa. Þar á meðal styrki FIFA sem við höfum fengið á undanförnum árum og hugsanlega framtíðarstyrki. Svo ræddum við líka um á hvaða hátt FIFA gæti aðstoðað okkur á ýmsum sviðum, þar á meðal hvað varðar þjálfun og dómgæslu," sagði Geir Þorsteinsson í viðtali við Stöð 2.

„Blatter lofaði okkur að koma til Íslands aftur, hann hefur einu sinni komið síðan hann varð forseti. Það var 1998 þegar hann var nýtekinn við en þá unnum við Rússa 1-0 svo ég sagði við hann að hann þyrfti að færa okkur gæfi aftur og hann lofaði að gera það. Hugsanlega strax í haust."

Geir Þorsteinsson segir von á fleiri styrkjum til knattspyrnuhreifingarinnar á Íslandi. „Það er ljóst að við höldum áfram að sækja fjármagn til FIFA. Hann tók vel í það," sagði Geir.

Blatter fagnaði afmæli sínu í dag og fékk hann íslenskan lax í gjöf frá KSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×