Skorpuþjóðin Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar 19. nóvember 2008 06:00 Á sjöunda áratugnum gekk síldin um Íslandsmið sem aldrei fyrr. Búinn ASDIC-fiskleitartækjum og kraftblökkum mætti íslenski flotinn henni og hreinsaði hana upp. Með öllu. Veiðin fór úr 770 þúsund tonnum árið 1966 í síldveiðibann árið 1972. En síldin var í okkar lögsögu og við vorum því í fullum rétti. Norðmenn stóðu í ströngu við Íslendinga í Smugunni á tíunda áratugnum. Þar þótti okkur sjálfsagt að fá að veiða það sem okkur sýndist, þvert ofan í ráðgjöf fiskifræðinga, af því Smugan væri alþjóðlegt hafsvæði og við hefðum rétt á því. Á dögunum bárust síðan fregnir af því að Íslendingar hefðu veitt fimm sinnum meira af makríl en þeir höfðu kvóta fyrir. Í stað 20 þúsund tonna urðu þau 100 þúsund. Við höfðum á þessu eðlilega skýringu, þetta hefði verið meðafli, við værum því í fullum rétti. Spurningum varðandi áhrif Kárahnjúkavirkjunar var misjafnlega vel tekið. Ábendingum um slælegar rannsóknir á afleiðingum hennar fyrir vatnafar á svæðinu, fyrir hrygningarstofna undan landi og um þensluhvetjandi áhrif hennar, var vísað frá sem nöldri. Okkur vantaði aura og því skiptu óafturkræf áhrif engu máli; við værum í fullum rétti. Íslensku bankarnir stofnuðu síðar reikninga erlendis. Þrátt fyrir skýr lagaleg ákvæði þar um fannst íslenskum stjórnvöldum engin ástæða til að tryggja þann hluta innstæðnanna sem þeim bar. Það snerist upp í sjálfstæðisbaráttu að segja breskum sveitarfélögum og ömmum með ævisparnaðinn, að þrátt fyrir að Ísland hefði sagst standa að baki ríflega 20 þúsund pundum á hvern reikning, þá gilti það ekki núna. Ástandið hjá okkur væri bara þannig. Við værum því í fullum rétti. Sú hugsun læðist að manni að við Íslendingar séum rányrkjuþjóð. Við einhendum okkur í verkin og köllum það að vera skorpuþjóð. Í raun reynum við að ná sem mestum gróða inn á sem skemmstum tíma og sjáumst ekki fyrir um afleiðingarnar. Um það vitnar geirfuglinn í Eldey sem ekki þurfti að kemba hærurnar. Við erum dugleg, það vantar ekki, en ráðdeildina skortir. Ef við teljum okkur í fullum rétti þá erum við sátt, þótt við skiljum eftir okkur sviðna jörð. Kannski má heimsbyggðin þakka fyrir að við erum ekki nema um 300 þúsund. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Kolbeinn Óttarsson Proppé Mest lesið Þjónn, það er bakslag í beinasoðinu mínu Hlédís Maren Guðmundsdóttir Skoðun Er loftslagskvíðinn horfinn? Sonja Huld Guðjónsdóttir Skoðun Tvær leiðir færar til þess að skóli fyrir alla geti virkað Íris Björk Eysteinsdóttir Skoðun Skrift er málið Guðbjörg Rut Þórisdóttir Skoðun Hagsmunir flugrekstrar á Íslandi eru miklir Jóhannes Bjarni Guðmundsson Skoðun Þöggun, hroki og afneitun voru móttökur Samfylkingarinnar til okkar Elín A. Eyfjörð Ármannsdóttir Skoðun Kvöld sem er ekki bara fyrir börnin Alicja Lei Skoðun Betri hellir, stærri kylfur? Ingvar Þóroddsson Skoðun Aðförin að einkabílnum eða bara meira frelsi? Kristín Hrefna Halldórsdóttir Skoðun Má endalaust vera níðingur!! Arna Magnea Danks Skoðun
Á sjöunda áratugnum gekk síldin um Íslandsmið sem aldrei fyrr. Búinn ASDIC-fiskleitartækjum og kraftblökkum mætti íslenski flotinn henni og hreinsaði hana upp. Með öllu. Veiðin fór úr 770 þúsund tonnum árið 1966 í síldveiðibann árið 1972. En síldin var í okkar lögsögu og við vorum því í fullum rétti. Norðmenn stóðu í ströngu við Íslendinga í Smugunni á tíunda áratugnum. Þar þótti okkur sjálfsagt að fá að veiða það sem okkur sýndist, þvert ofan í ráðgjöf fiskifræðinga, af því Smugan væri alþjóðlegt hafsvæði og við hefðum rétt á því. Á dögunum bárust síðan fregnir af því að Íslendingar hefðu veitt fimm sinnum meira af makríl en þeir höfðu kvóta fyrir. Í stað 20 þúsund tonna urðu þau 100 þúsund. Við höfðum á þessu eðlilega skýringu, þetta hefði verið meðafli, við værum því í fullum rétti. Spurningum varðandi áhrif Kárahnjúkavirkjunar var misjafnlega vel tekið. Ábendingum um slælegar rannsóknir á afleiðingum hennar fyrir vatnafar á svæðinu, fyrir hrygningarstofna undan landi og um þensluhvetjandi áhrif hennar, var vísað frá sem nöldri. Okkur vantaði aura og því skiptu óafturkræf áhrif engu máli; við værum í fullum rétti. Íslensku bankarnir stofnuðu síðar reikninga erlendis. Þrátt fyrir skýr lagaleg ákvæði þar um fannst íslenskum stjórnvöldum engin ástæða til að tryggja þann hluta innstæðnanna sem þeim bar. Það snerist upp í sjálfstæðisbaráttu að segja breskum sveitarfélögum og ömmum með ævisparnaðinn, að þrátt fyrir að Ísland hefði sagst standa að baki ríflega 20 þúsund pundum á hvern reikning, þá gilti það ekki núna. Ástandið hjá okkur væri bara þannig. Við værum því í fullum rétti. Sú hugsun læðist að manni að við Íslendingar séum rányrkjuþjóð. Við einhendum okkur í verkin og köllum það að vera skorpuþjóð. Í raun reynum við að ná sem mestum gróða inn á sem skemmstum tíma og sjáumst ekki fyrir um afleiðingarnar. Um það vitnar geirfuglinn í Eldey sem ekki þurfti að kemba hærurnar. Við erum dugleg, það vantar ekki, en ráðdeildina skortir. Ef við teljum okkur í fullum rétti þá erum við sátt, þótt við skiljum eftir okkur sviðna jörð. Kannski má heimsbyggðin þakka fyrir að við erum ekki nema um 300 þúsund.
Þöggun, hroki og afneitun voru móttökur Samfylkingarinnar til okkar Elín A. Eyfjörð Ármannsdóttir Skoðun
Þöggun, hroki og afneitun voru móttökur Samfylkingarinnar til okkar Elín A. Eyfjörð Ármannsdóttir Skoðun