Íslenski boltinn

KSÍ ætlar að fylla Laugardalsvöllinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Íslands og Serbíu í fyrra.
Úr leik Íslands og Serbíu í fyrra. Mynd/Anton

Knattspyrnusamband Íslands ætlar sér að fylla Laugardalsvöllinn er Ísland tekur á móti Slóveníu í undankeppni EM 2009 annan laugardag.

Þórir Hákonarson, framkvæmdarstjóri KSÍ, sagði á blaðamannafundi í dag að boðið verði upp á fjölskylduhátíð fyrir leikinn en dagskrá hennar verður auglýst betur síðar.

Miðasalan á leikinn hefst í dag á ksí.is og miði.is en miðaverð er 1000 krónur fyrir sextán ára og eldri en frítt fyrir þá yngri.

Geir Þorsteinsson sagði að það væru spennandi tímar framundan enda íslenska landsliðið á barmi þess að tryggja sér sæti í úrslitakeppni stórmóts í knattspyrnu.

„Við höfum dreymt lengi um að komast inn á stórmót. Við teljum okkur eiga fullt erindi þangað inn enda í fremstu röð með okkar lið. Við þurfum hins vegar stuðning áhorfenda og því höfum við sett okkur það markmið að fylla völlinn í fyrsta skipti á A-landsleik kvenna. Það er háleitt markmið en við teljum þetta mögulegt."

Aðsóknarmet var sett á leik Íslands og Serbíu í fyrra er meira en sex þúsund áhorfendur komu á völlinn.

„Katrín Jónsdóttir hafði það á orði í hálfleik í þeim leik að henni fannst við vera tveimur fleiri á vellinum," sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari. „Það væri frábært að fá tilfinningu aftur."

Ísland á tvo leiki framundan á heimavelli í undankeppni EM 2009. Fyrst gegn Slóveníu og svo Grikklandi. Sigurður Ragnar stefnir á sigur í báðum leikjum en með sigri á Slóvenum tryggir liðið sig í umspil um laust sæti á EM.

Efsta sætið í hverjum riðli undankeppninnar tryggir beinan þátttökurétt á EM í Finnlandi á næsta ári og þarf Ísland að vinna báða leikina sem eru framundan til að eiga möguleika á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×