Fótbolti

Ancelotti: Við verðum að skoða hvað fór úrskeiðis

NordcPhotos/GettyImages

Carlo Ancelotti, þjálfari AC Milan, segir að hans menn verði að fara í rækilega naflaskoðun í sumar í kjölfar þess að liðið náði sér aldrei á strik í A-deildinni í vetur.

Milan byrjaði afleitlega í deildinni og varð að sætta sig við sæti í Evrópukeppni félagsliða þrátt fyrir 4-1 sigur á Udinese í lokaumferðinni.

"Við verðum að skoða hvar við enduðum í töflunni og sætta okkur við að við náðum ekki að vinna okkur sæti í Meistaradeildinni á næsta tímabili. Við verðum að greina hvað fór úrskeiðis hjá okkur, en að mínu mati kostaði þessi slæma byrjun okkur mikið. Við vorum lélegir á heimavelli og gerðum ekki það sem við þurftum að gera," sagði þjálfarinn, sem virðist ekki hlakka sérstaklega til þess að spila í Uefa keppninni á næstu leiktíð.

"Nú fáum við ár í hreinsunareldinum en við munum halda bjartsýnir áfram eins og við gerum alltaf. Við munum leggja höfuðáherslu á deildarkeppnina og það að verða betri," sagði Ancelotti eftir lokaleikinn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×