„Þetta er þriðja árið í röð sem Húnavakan er haldin frá því að hún var endurvakin, en í ár ákváðum við að gera eitthvað extra og halda popplagakeppni í tilefni af því að tuttugu ár eru liðin frá því að Blönduós fékk kaupstaðarréttindi," segir Einar Örn Jónsson framkvæmdastjóri Húnavökunnar og meðlimur hljómsveitarinnar Í svörtum fötum.
„Þátttakan var vonum framar og 44 lög bárust í keppnina, en aðeins níu munu keppa til úrslita í Vökulögunum 2008 í íþróttahúsinu á Blönduósi föstudagskvöldið 11. júlí," úskýrir Einar Örn sem býst við að bærinn muni fyllast af gestum og brottfluttum á fjölskyldu- og menningarhátíð Húnavöku sem mun standa yfir frá 11.-13. júlí næstkomandi.
„Lögin verða frumflutt í heild sinni í þætti Felix Bergssonar á Rás 2 laugardaginn 5. júlí og búið er að gera geisladisk með lögunum níu sem munu keppa til úrslita. Þeir sem eru á leiðinni á Blönduós geta til dæmis kippt honum með sér á N1 á Ártúnshöfða," segir Einar Örn að lokum. - ag