Íslenski boltinn

Sögulegur sigur íslensku stelpnanna á Norðmönnum

Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir. Mynd/Rósa

Íslenska kvennalandsliðið vann 3-1 sigur á Noregi í fyrsta leik liðsins á Algarve-bikarnum en þetta er í fyrsta sinn sem kvennalandsliðið vinnur Noreg.

Íslensku stelpurnar eru komnar í 3-1 gegn Noregi eftir að hafa skorað tvö mörk á fyrstu átta mínútum seinni hálfleiks, fyrst Sara Björk Gunnarsdóttir með sitt annað skallamark og svo sendu norsku stelpurnar boltann í sitt eigið mark eftir skalla Margrétar Láru Viðarsdóttur.

Sara Björk skoraði sitt annað mark í leiknum á 51. mínútu en hún hefur skorað bæði mörk sín með skalla það fyrra eftir aukaspyrnu Eddu Garðarsdóttur og það síðara eftir fyrirgjöf Hólmfríðar Magnúsdóttur.

Edda átti einnig þátt í þriðja markinu tveimur mínútum síðar en Margrét Lára Viðarsdóttir skallaði þá aukaspyrnu hennar í varnarmann og í netið.

Það er kominn hálfleikur í leik Íslands og Noregs á Algarve-bikarnum og staðan er jöfn 1-1. Sara Björk Gunnarsdóttir kom Íslandi yfir en Norðmenn jöfnuðu metin sex mínútum fyrir hálfleik.

Norðmenn jöfnuðu metin á 39. mínútu leiksins en höfðu áður skotið framhjá úr vítaspyrnu.

Dóra Stefánsdóttir og Sara Björk hafa báðar fengið að líta gula spjaldið í leiknum, Dóra á 27. mínútu og Sara fimm mínútum fyrir hálfleik.

Mark Söru kom eftir 16. mínútna leik. Hún skoraði markið með skalla eftir aukaspyrnu frá Eddu Garðarsdóttur en þetta er fjórða mark hennar fyrir íslenska A-landsliðið.

Ísland hefur aldrei unnið Noreg í A-landsleik kvenna en þetta er í sjötta sinn sem þjóðirnar mætast.

 

Byrjunarlið Ísland í leiknum (4-5-1):

Markvörður: Guðbjörg Gunnarsdóttir

Hægri bakvörður: Ásta Árnadóttir

Vinstri bakvörður: Ólína G. Viðarsdóttir

Miðverðir: Katrín Jónsdóttir, fyrirliði og Guðrún Sóley Gunnarsdóttir

Varnartengilðir: Edda Garðarsdóttir og Dóra Stefánsdóttir

Sóknartengiliður: Sara Björk Gunnarsdóttir

Hægri kantur: Dóra María Lárusdóttir

Vinstri kantur: Hólmfríður Magnúsdóttir

Framherji: Margrét Lára Viðarsdóttir

 


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×