Íslenski boltinn

Færeyingar komnir með styrktaraðila á sína deild

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Högni í Stórustovu, forseti FSF var sáttur með samninginn.
Högni í Stórustovu, forseti FSF var sáttur með samninginn. Mynd/www.fsf.fo

Færeyska fótboltasambandið undirritaði í dag þriggja ára samning við nýjan styrktaraðila fyrir úrvalsdeildina í Færeyjum. Deildin mun heita Vodafonedeildin næstu þrjú tímabil en Högni í Stórustovu, forseti færeyska fótboltasambandsins og og Bjarni Askham Bjarnason, forstjóri Vodafone í Færeyjum, undirrituðu samninginn með viðhöfn í dag.

Undanfarin fjögur ár hefur færeyska úrvalsdeildin heitið Formuladeildin en fyrirtækið Formula International ákvað að hætta að styrkja deildina á dögunum. Færeyingar voru fljótir að finna sér nýjan styrktaraðila eftir að þeir lentu í sömu stöðu og KSÍ sem missti líka sinn styrktaraðila á dögunum þegar Landsbankinn dró sig til baka. KSÍ hefur enn ekki fundið sér nýjan styrktaraðila en samkvæmt fréttum frá KSÍ þá hafa viðræður átt sér stað við mögulega styrktaraðila.

"Vodafone hefur lengi verið í tengslum við fótboltann og er sem dæmi annar af aðalstyrktaraðilum Meistaradeildar Evrópu. Við í Færeyjum er því mjög spenntir fyrir samstarfinu við þetta stóra alþjóðlega fyrirtæki," sagði Högni í Stórustovu, forseti færeyska fótboltasambandsins á blaðamannafundi í dag.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×