Innlent

Geta greitt tæp tíu prósent

Fundarmenn á aðalfundi Samvinnusjóðsins og Andvaka í fyrra. Meðal fundarmanna er Finnur Ingólfsson. Fréttablaðið/GVA
Fundarmenn á aðalfundi Samvinnusjóðsins og Andvaka í fyrra. Meðal fundarmanna er Finnur Ingólfsson. Fréttablaðið/GVA
Skilanefnd Landsbankans hefur stefnt eignarhaldsfélaginu Gift vegna skulda félagsins við bankann. Viðræður hafa átt sér stað um skuldina. Fyrirtaka fór fram í málinu í gær en var frestað fram í næsta mánuð.

Samvinnutryggingar, sem stofnuðu Gift, voru umsvifamiklar í fjárfestingum um árabil. Fyrirtækið tók þátt í kaupum á Búnaðarbankanum með S-hópnum svonefnda árið 2003 og hagnaðist mjög.

Við slit Samvinnutrygginga fyrir um tveimur árum voru bæði eignir og skuldir færðar yfir til Giftar. Þeir sem tryggðu á tilteknu árabili hjá Samvinnutryggingum áttu rétt á að fá fjárhæð sem svaraði til eignahlutar í Gift.

Um mitt ár 2007 var skilanefnd sett yfir Gift og ákveðið að slíta félaginu. Það hélt hins vegar áfram fjárfestingum sínum.

Fyrir hrun átti Gift um eitt prósent í Kaupþingi og í Oddaflugi, sem aftur átti hlut í Icelandair. Eignir fyrir hrun voru metnar á um sextíu milljarða króna.

Ekki liggur fyrir hversu há skuld Giftar við Landsbankann er. DV hélt því fram í gær að hún væri til komin vegna afleiðusamninga við bankann. Gift er nú tæknilega gjaldþrota og skuldir taldar vera í kringum fimmtíu milljarðar króna. Hugsanlegt er að það geti greitt um átta prósent af skuldum sínum. - jab



Fleiri fréttir

Sjá meira


×