Íslenski boltinn

Eftirminnilegur lokasprettur í síðasta Kínaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði tvö mörk í síðasta leik á móti Kína.
Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði tvö mörk í síðasta leik á móti Kína.

Íslenska kvennalandsliðið hefur aðeins einu sinn mætt Kínverjum í A-landsleik og það var í leik um níunda sætið á Algarve-bikarnum fyrir tveimur árum síðan. Ísland vann þann leik 4-1 eftir að staðan var markalaus eftir 67 mínútna leik.

Kína byrjaði leikinn mun betur og Þóra Björg Helgadóttir hélt íslenska liðinu á floti með frábærri markvörslu framan af leik. Íslenska vörnin hélt út og síðustu 22 mínútur leiksins tók síðan íslenska sóknin til sinna ráða.

Dóra María Lárusdóttir opnaði markareikninginn á 68. mínútu og í kjölfarið fylgdu þrjú íslensk mörk, tvö frá Margréti Láru Viðarsdóttur og eitt frá Gretu Mjöll Samúelsdóttur. Kínverjar náðu síðan að minnka muninn í lokin.

Fimm leikmenn byrjunarliðsins á móti Kína í dag byrjuðu einnig þennan leik 14. mars 2007. Það eru Katrín Jónsdóttir, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Dóra Stefánsdóttir, Edda Garðarsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir.

Að auki komu Sif Atladóttir, Dóra María Lárusdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir allar inn á sem varamenn en þær byrja líka leikinn í dag.

Kína er aðeins búið að skora eitt mark í mótinu til þessa og það var sigurmarkið í síðasta leik á móti Finnlandi. Þar á undan hafði liðið gert markalaust jafntefli við Svíþjóð og tapað 0-3 fyrir Þýskalandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×