Erna Björk Sigurðardóttir, fyrirliði Breiðabliks, var himinlifandi með sigur sinna manna á Val á Vodafone-vellinum í kvöld.
Breiðablik vann 3-2 sigur á Val eftir að hafa skorað tvö mörk í uppbótartíma leiksins.
Breiðablik lék með sterkan vind í bakið í síðari hálfleik en náði ekki að færa sér það í nyt fyrr en á lokamínútum leiksins.
„Þetta var mjög sætur sigur, sérstaklega þar sem við vorum ekki að gera neitt fyrsta hálftímann í síðari hálfleik. Eftir að þær komust yfir byrjuðum við að ýta þeim frá okkur og pressa á þær. Það var eins og við föttuðum hvað við þurftum að gera einmitt þá en hefðum átt að byrja á því miklu fyrr."
„En þessi sigur mun veita okkur mikið sjálfstraust. Það er samt heilmikið sem má laga. Við munum bara halda ótrauðar áfram og taka einn leik fyrir í einu."
Erna: Veitir okkur sjálfstraust
Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
