Menning

Síamstvíburar í Þjóðleikhúsinu

Ívar Örn Sverrisson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir eru að æfa sig í að vera samstiga og tala sem eitt. Þau eru að gera tilraunir með hvar þau verði föst saman.fréttablaðið/anton
Ívar Örn Sverrisson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir eru að æfa sig í að vera samstiga og tala sem eitt. Þau eru að gera tilraunir með hvar þau verði föst saman.fréttablaðið/anton
„Jú, við erum svona að gera tilraunir með þetta. Erum að æfa okkur í að annað drekki og hitt ropi og tala samtímis," segir Ívar Örn Sverrisson leikari.

Ívar leikur síamstvíbura ásamt Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur í verkinu Sædýrasafnið í Kassanum í Þjóðleikhúsinu sem sýnt verður í lok mars. Mikil spenna er fyrir verkinu í Frakklandi og mun sjónvarpsstöðin ARTE koma og fylgjast með lokaæfingum á verkinu. „Ástæðan fyrir spenningnum er sú að höfundur verksins er mjög þekktur rithöfundur þar í landi, Marie Darrieussecq, og þetta er hennar fyrsta leikverk. Það er fyrst sýnt hér á landi en svo er það sýnt úti í lok maí en það er uppselt á allar sýningarnar í Frakklandi," segir Ívar. Þjóðleikhússtjóri sá verk eftir Marie Darrieussecq á listahátíð og kom sér í samband við hana og úr varð þetta samstarfsverkefni. Sjón þýðir verkið á íslensku, Barði sér um tónlistina og Erna Ómarsdóttir sér um sviðshreyfingar. Auk Ívars og Vigdísar Hrefnu leika svo Stefán Hallur Stefánsson, Björn Hlynur Haraldsson, Elva Ósk Ólafsdóttir og Margrét Vilhjálmsdóttir aðalhlutverkin.

Ívar Örn og Vigdís Hrefna eiga ærið samhæfingarverkefni fyrir höndum. Aðeins einu sinni áður hafa síamstvíburar verið leiknir á íslensku sviði og það var fyrir meira en tuttugu árum. Ívar og Vigdís Hrefna þekkjast vel fyrir, voru bekkjarsystkin í Leiklistar­skólanum og hafa því smá forskot á náin kynni. Ívar segir að síamstvíburarnir tali, eins og margir aðrir tvíburar, sitt eigið tungumál. „Ég hef aðeins kynnt mér síamstvíbura á netinu og svo kom það sér vel að þáttur um síamstvíbura var nýlega sýndur í Ríkissjónvarpinu. Þetta er spennandi verkefni," segir Ívar.- jma






Fleiri fréttir

Sjá meira


×