Menning

Framleiðir leikrit með Titanic-stjörnu í Los Angeles

Óskar ásamt stjörnunum tveimr, þeim Paul Ben Victor og Frances Fischer sem er barnsmóðir Íslandsvinarins Clint Eastwood. Fyrir miðju er síðan leikstjórinn Gary Bloomsack.
Óskar ásamt stjörnunum tveimr, þeim Paul Ben Victor og Frances Fischer sem er barnsmóðir Íslandsvinarins Clint Eastwood. Fyrir miðju er síðan leikstjórinn Gary Bloomsack.

Leikverkið Sexy Laundry er tilnefnt til þriggja verðlauna hjá tímaritinu LA Weekly en það þykja virtustu leikhúsverðlaunin í Englaborginni. Einn framleiðandi verksins er Íslendingurinn Óskar Eiríksson og hann var að vonum ákaflega glaður yfir þessum fréttum þegar Fréttablaðið náði tali af honum. „Þetta eru víst stærstu verðlaunin í borginni þótt þau telji lítið á ameríska vísu," segir Óskar og er þar að vísa meðal annars til Tony-verðlaunanna sem eru hálfgerð Óskarsverðlaun fyrir bandarískt leikhúsfólk. Í LA er þó urmullinn allur af leikhúsum og þar er mjög blómlegt leikhúslíf þótt allra augu beinist að sjálfsögðu að kvikmyndaframleiðslunni í Hollywood. Sexy Laundry er tilnefnt sem besti einleikurinn, besti leikstjóri einleiks og besta leikmyndin.

Óskar hefur lítið fengist við leikhúsframleiðslu á Íslandi, setti upp Hundrað prósent hittni með Helgu Brögu fyrir nokkrum árum og hafði veg og vanda af komu munka sem settu á svið mikið sjónarspil í Laugardalshöllinni. Undanfarin tíu ár hefur hann þó alfarið einbeitt sér að útlöndum og framleiðslu leikverka erlendis. „Maður kannski hálfskammast sín fyrir að segja þetta, en maður er bara í útrás. Kannski er það allt í lagi þegar maður í leikhúsbransanum," segir Óskar og hlær. Samstarfsaðilar Óskars í Sexy Laundry eru ekki af verri endanum; William Morris-umboðsskrifstofan og The Netherlanders, einn stærsti leikhúsframleiðandi Bandaríkjanna.

„Þeir eiga níu leikhús á Broadway og eru með leikhús um öll Bandaríkin," segir Óskar sem hefur mörg járn í eldinum, á meðal annars Evrópuréttinn að söngleiknum Menopause, söngleik um breytingaskeið kvenna, sem slegið hefur í gegn í Bandaríkjunum og Ástralíu. „Ég reikna með að setja hann upp í Bretlandi, Skandinavíu, Þýskalandi og á Spáni á næstu mánuðum og misserum," segir Óskar og útilokar ekki að verkið rati jafnvel alla leið til Íslands.

Hið sama á við um Sexy Laundry, Óskar vonar að það verði sett upp á Íslandi. Verkið fékk frábæra dóma í Varitey þegar það var frumsýnt en aðalleikarnir tveir eru þau Frances Fischer, sem lék meðal annars vondu mömmuna í Titanic og Paul Ben Victor, einn aðalleikaranna úr sjónvarpsþáttunum Entourage. -freyrgigja@frettabladid.is








Fleiri fréttir

Sjá meira


×