Gunnlaugur Júlíusson ætlar að svitna vel við það að kynna bók sína „Að sigra sjálfan sig" sem er komin út hjá Vestfirska forlaginu. Á laugardaginn ætlar hann að hlaupa 100 km á hlaupabretti í World Class í Laugum.
„Það er bæði gert í tilefni af útkomu bókarinnar en einnig og ekki síður til að minna á starfsemi Grensássdeildarinnar og þá fjársöfnun sem farið hefur fram til að fjármagna frekari uppbyggingu á húsnæði og tækjakosti deildarinnar," segir í fréttatilkynningu frá Gunnlaugi.
„Sú starfsemi, sem fer fram á Grensásdeildinni, hefur gert fjölmörgum kleyft að sigrast á afleiðingum áfalla af ýmsu tagi. Það eru ekki síðri sigrar en þeir sem eru unnir á öðrum vettvangi.
Ákveðin upphæð af söluandvirði hverrar bókar „Að sigra sjálfan sig" rennur til Grensásssöfnunarinnar. Reikningur Hollvina Grensássdeildarinnar er 0311-26-6704 og kennitala samtakanna er 670406-1210," segir ennfremur í fréttatilkynningu frá Gunnlaugi.
Gunnlaugur fær félaga sína úr hlaupasamfélaginu til að hlaupa með sér lengri og skemmri vegalengd en hlaupið hefst klukkan 9 um morguninn og mun taka um það bil tíu klukkutíma.