Bæði Tiger Woods og Phil Mickelson fóru illa að ráði sínu undir lokin á hringjum sínum á Masters mótinu í golfi sem er við það að klárast.
Þeir voru saman í ráshóp og áttu báðir góða hringi. Undir lokin gerðu þeir þó báðir of mörg mistök og vinna því ekki mótið í ár. Þeir komust báðir lægst á tíu undir par.
Tiger klúðraði upphafshöggi sínu á sautjándu brautinni og fékk þar skolla, sinn fyrsta í dag. Hann hitti heldur ekki 18. brautina og skaut svo í tré í öðru skotinu sínu. Hann hefði þurft fugl til að setja einhverja pressu á efstu menn en mistókst það, endaði á skolla og lauk keppni á átta undir pari.
Mickelson missti stutt pútt á tveimur holum undir lokin sem gerðu út um vonir hans, auk þess sem hann fékk tvöfaldan skolla sem varð honum dýrkeyptur. Hann endaði á níu höggum undir pari.
Kenny Perry er efstur sem stendur á tólf höggum undir pari, einu höggi á undan Chad Campbell. Hann á fimm holur eftir.