Íslenski boltinn

Fyrsti sigur kvennalandsliðsins á Englandi í sögunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska kvennalandsliðið er áfram á uppleið.
Íslenska kvennalandsliðið er áfram á uppleið. Mynd/Stefán

Íslenska kvennalandsliðið vann sögulegan sigur á því enska í Colchester í gærkvöldi þegar stelpurnar okkar unnu sanngjarnan 2-0 sigur á níundu bestu knattspyrnuþjóð heims samkvæmt styrkleikalista FIFA. Þetta var í fyrsta sinn frá upphafi sem Ísland vinnur England en besti árangurinn fyrir leikinn var eitt jafntefli í níu leikjum.

Fyrir leikinn í gær hafði enska liðið unnið átta af níu leikjum þar af þá fjóra síðustu. Ísland náði 2-2 jafntefli á móti Englandi á Laugardalsvellinum í aukaleik um sæti á HM í september 2002. Markatalan í þessum níu leikjum var 5-19 íslenska liðinu í óhag.

Fyrra mark íslenska liðsins sem Hólmfríður Magnúsdóttir gerði eftir 29 mínútna leik var einnig langþráð í leikjum við þær ensku því íslenska liðið hafi ekki skorað í fjórum leikjum í röð á móti Englandi. Þegar Hólmfríður setti boltann í netið þá voru liðnar 424 mínútur síðan íslenska kvennalandsliðið skoraði hjá því enska.

Sigurður Ragnar Eyjólfsson hafi stjórnað íslenska landsliðinu einu sinni áður á móti Englandi og sá leikur tapaðist 0-4. Frá þeim leik hefur íslenska liðið verið í stöðugri framför sem sást kannski best á úrslitunum í gær.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×