Mótmælendur Íslands Gerður Kristný skrifar 14. september 2009 06:00 Stjórnmálamenn voru fljótir að stökkva á þá hugmynd að útbúa minnisvarða um Helga Hóseasson. „Þeir eru mjög margir sem hafa áhuga á þessu. Ég finn fyrir því í samfélaginu að þótt fólk sé ekki endilega sammála öllu sem Helgi sagði, þá ber það virðingu fyrir þeirri staðfestu sem hann sýndi í sinni áralöngu baráttu," sagði Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar í borgarstjórn, inni á Vísi. Þá hafði RÚV þegar sagt frá því að margir hefðu skráð sig á síðu inni á Snjáldrinu til að lýsa yfir áhuga sínum á minnisvarða um Helga. Orðalagið „endilega sammála öllu" er skemmtilegt hjá Degi en Helgi barðist fyrir því í nær fjörutíu ár að fá skírnarsáttmálann sinn ógildan. Davíð Oddsson, skyrslettur og sýklar blönduðust líka inn í baráttuna. Styttur eru minnisvarðarnir sem íslenskir karlmenn hafa reist hverjir öðrum frá alda öðli. Ingólfur Arnarson fékk styttu en ekki Hallveig, kona hans, og komu þau samt hingað á sama skipinu. Það eru til fleiri leiðir til að muna eftir fólki en að reisa af því styttu. Í tilfelli Helga mætti til dæmis skreyta leið 14 sem ekur eftir Langholtsveginum með furðulegu slagorðunum sem stóðu á skiltunum hans. Þannig gæti boðskapurinn flust víðar þótt ekki væri nema um nokkurra vikna skeið. Síðan gæti borgin fengið lagahöfund til að semja lag um Helga sem kennt yrði í leikskólum. Dúfur geta ekki kúkað á lög. Margir gengnir borgarbúar eiga skilið að þeirra sé minnst, svo sem Laufey Jakobsdóttir, amman í Grjótaþorpinu. Ekki fékk hún áletraða hellu, lágmynd eða beð sér til heiðurs á heimaslóðum sínum en Megas heldur minningu hennar á lofti með því að syngja um hana í Krókódílamanninum. Þar birtist hún sem sá bjargvættur sem hún var í lifanda lífi. Eitt er það sem mér finnst fallegt í umræðunni um minnisvarðann hans Helga en það er sú hugmynd að verðlauna einhvern fyrir staðfestu - jafnvel þótt staðfestan hafi ekki komið neinu sérstöku til leiðar. Fyrir fólkið í landinu yrði minnisvarðinn þó vafalítið annað og meira en aðeins til minningar um þennan eina mann og staðfestuna miklu. Eftir eitt viðburðaríkasta ár í sögu þjóðarinnar þar sem gengið hefur á meiru en nokkurn óraði fyrir grunar mig að fólk vilji fyrst og fremst minnisvarða um þrautseigjuna sem það hefur nú sjálft þegar sýnt og þarf að sýna eilítið lengur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Gerður Kristný Mest lesið Eignarhaldsfélag Ingu og hirðin hennar Davíð Bergmann Skoðun Bönnum íþróttamót barna fyrir kl. 10 um helgar Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Hverjir munu búa á Blikastaðalandi? Aldís Stefánsdóttir Skoðun Opið bréf til Ingu Sæland Ragnar Erling Hermannsson Skoðun Eru landeigendur við Þjórsá huldufólk? Þorgerður María Þorbjarnardóttir Skoðun Vatnamálalögin og Hvammsvirkjun: Almannaheill ? Mörður Árnason Skoðun Svar við greininni „Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu“ Hópur lækna Skoðun Ekkert samráð – ekkert traust Björg Eva Erlendsdóttir Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Spurningar og svör um Evrópumál Jón Baldvin Hannibalsson Skoðun
Stjórnmálamenn voru fljótir að stökkva á þá hugmynd að útbúa minnisvarða um Helga Hóseasson. „Þeir eru mjög margir sem hafa áhuga á þessu. Ég finn fyrir því í samfélaginu að þótt fólk sé ekki endilega sammála öllu sem Helgi sagði, þá ber það virðingu fyrir þeirri staðfestu sem hann sýndi í sinni áralöngu baráttu," sagði Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingar í borgarstjórn, inni á Vísi. Þá hafði RÚV þegar sagt frá því að margir hefðu skráð sig á síðu inni á Snjáldrinu til að lýsa yfir áhuga sínum á minnisvarða um Helga. Orðalagið „endilega sammála öllu" er skemmtilegt hjá Degi en Helgi barðist fyrir því í nær fjörutíu ár að fá skírnarsáttmálann sinn ógildan. Davíð Oddsson, skyrslettur og sýklar blönduðust líka inn í baráttuna. Styttur eru minnisvarðarnir sem íslenskir karlmenn hafa reist hverjir öðrum frá alda öðli. Ingólfur Arnarson fékk styttu en ekki Hallveig, kona hans, og komu þau samt hingað á sama skipinu. Það eru til fleiri leiðir til að muna eftir fólki en að reisa af því styttu. Í tilfelli Helga mætti til dæmis skreyta leið 14 sem ekur eftir Langholtsveginum með furðulegu slagorðunum sem stóðu á skiltunum hans. Þannig gæti boðskapurinn flust víðar þótt ekki væri nema um nokkurra vikna skeið. Síðan gæti borgin fengið lagahöfund til að semja lag um Helga sem kennt yrði í leikskólum. Dúfur geta ekki kúkað á lög. Margir gengnir borgarbúar eiga skilið að þeirra sé minnst, svo sem Laufey Jakobsdóttir, amman í Grjótaþorpinu. Ekki fékk hún áletraða hellu, lágmynd eða beð sér til heiðurs á heimaslóðum sínum en Megas heldur minningu hennar á lofti með því að syngja um hana í Krókódílamanninum. Þar birtist hún sem sá bjargvættur sem hún var í lifanda lífi. Eitt er það sem mér finnst fallegt í umræðunni um minnisvarðann hans Helga en það er sú hugmynd að verðlauna einhvern fyrir staðfestu - jafnvel þótt staðfestan hafi ekki komið neinu sérstöku til leiðar. Fyrir fólkið í landinu yrði minnisvarðinn þó vafalítið annað og meira en aðeins til minningar um þennan eina mann og staðfestuna miklu. Eftir eitt viðburðaríkasta ár í sögu þjóðarinnar þar sem gengið hefur á meiru en nokkurn óraði fyrir grunar mig að fólk vilji fyrst og fremst minnisvarða um þrautseigjuna sem það hefur nú sjálft þegar sýnt og þarf að sýna eilítið lengur.