Menning

Listgreinar bítast um Ó. Johnson & Kaaber hús

bíómenn taka húsið út Að sögn Halldórs Þorgeirssonar er húsið frábært sem rammi um kvikmyndaþorp í Reykjavík. Hann og Ari Kristinsson fara fyrir hópi kvikmyndagerðarmanna sem vilja húsið.fréttablaðið/Stefán
bíómenn taka húsið út Að sögn Halldórs Þorgeirssonar er húsið frábært sem rammi um kvikmyndaþorp í Reykjavík. Hann og Ari Kristinsson fara fyrir hópi kvikmyndagerðarmanna sem vilja húsið.fréttablaðið/Stefán

Kvikmyndagerðarmenn eru áhugasamir um Ó. Johnson & Kaaber húsið við Sæ­tún. Þar með er brostin á samkeppni um húsið milli listgreina.

„Við höfum mikinn áhuga á að taka þetta yfir. Og má segja að þessir hópar séu að keppa. Þau vilja gera þarna einhvers konar listasafn. Við viljum sjá greinina flytja inn í þessi hús, gera þarna kvikmyndaþorp með stúdíói og öllu tilheyrandi. Þarna er allt fyrir hendi," segir Halldór Þorgeirsson kvikmyndagerðarmaður.

Brostin er á samkeppni milli myndlistarmanna og kvikmyndagerðarmanna um Ó. Johnson & Kaaber húsið við Sætún. Húsið er í eigu Landfesta, eignarhaldsfélags Kaupþings banka hins nýja, sem á allt húsnæði sem Kaupþing gamla átti, hefur eignaðst að undanförnu og mun eignast. „Þeirra verk er að koma þessu frá sér á viðeigandi verði," segir Halldór sem fer fyrir hópi kvikmyndagerðarmanna ásamt Ara Kristinssyni. En bíómenn eru ekki einir um hituna. Um helgina greindi Morgunblaðið frá hugmyndum um að hópur myndlistarmanna, undir forystu greifynjunnar Franc­escu von Habsburg, hafi fullan hug á að koma á fót miklu listasafni í húsinu. Ásamt von Habsburg kemur að málum dánarbú Dieters Roth.

Samkvæmt Morgunblaðinu lýsir von Habsburg sig reiðubúna til að leggja til 150 milljónir til endurbóta á húsnæðinu. „Ef listir geta einhvern tíma komið til hjálpar, þá er það á tímum sem þessum!" hefur Einar Falur Ingólfsson eftir greifynjunni í Mogga.

„Dýrt er að breyta húsnæði í listasafn. Við í okkar grein erum ánægð með húsakynnin eins og þau eru. Erum ekki vön að hafa þetta fínna," segir Halldór. Hann segir húsnæðið henta kvikmyndagerðinni vel. Er það óformlegur hópur kvikmyndgerðarmanna sem að málum kemur auk SÍK (Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðanda) en SÍK myndi ekki reka húsið ef til þess kæmi heldur yrði stofnað sérstakt félag um starfsemina. „Innan SÍK eru fjörutíu félög," segir Halldór sem telur húsið ákjósanlegt sökum eðlis þessara félaga sem þenjast út og dragast saman eftir verkefnastöðu. „Þá myndi ekki þurfa að henda búningum og leikmyndum en hent hefur verið ógrynni á undanförnum árum því enginn hefur efni á að halda þessu í geymslu."

Hópurinn stefnir að því að senda inn tilboð öðru hvorum megin við helgina en fyrir liggur að Kaupþing mun láta hæstbjóðanda eftir húsið. „Já, brostin er á mikil samkeppni milli kvikmyndagerðarmanna og myndlistarmanna. And may the best man win," segir Halldór. jakob@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×