Menning

Forlagið stelur Steinari Braga

Segist verða „cult“-fígúra eftir sem áður þótt hann sé nú genginn til liðs við Forlagið.
Segist verða „cult“-fígúra eftir sem áður þótt hann sé nú genginn til liðs við Forlagið.
„Jahhh, svíkja Nýhil? Nei, nei, það var mjög gott samkomulag um að ég færi," segir Steinar Bragi rithöfundur sem nýverið söðlaði um og gekk til liðs við Mál og menningu sem er hluti Forlags-veldisins.

Konur, nýjasta skáldsaga Steinar Braga, sem hið anarkíska forlag Nýhil - sjálfseignarstofnun rekin án arðsemissjónarmiða, gaf út, er uppseld hjá forlagi. Þúsund eintök farin. Bókin hlaut einróma lof; Fréttablaðið, Morgunblaðið og DV gáfu henni allar fimm stjörnur og nú tekur Forlagið við og gefur Konur út í kilju. „Það þótti óhentugt að dreifa einni vesældarlegri kilju um allt land fyrir Nýhil, forlag sem hefur ekki einu sinni afnot af bíl nema hugsanlega í gegnum móður einhvers. Jón Bjarki, DV-maðurinn heiðarlegi, fékk stundum lánaðan bíl hjá móður sinni til að dreifa en hann nennti ekki að tuða lengur í henni," segir Steinar Bragi óþarflega lítillátur. Viðar Þorsteinsson, heimspekingur hjá Nýhil, segir þetta laukrétt og fagnar því að Steinar Bragi sé kominn til stöndugs útgefanda og vonast til að honum verði sinnt sem hann á skilið. Nýhil einbeitir sér að grasrótinni.

Aðspurður segist Steinar Bragi finna lítið fyrir því að vera kominn á mála hjá stórveldi. Hann hitti Silju Aðalsteinsdóttur, útgáfustjóra Máls og menningar, af og til. Bókmenntapáfinn Egill Helgason sagði í viðtali við Steinar Braga í Kiljunni að hann hlyti að teljast „cult"-fígúra, væri ekki allra og í framhaldi af því spyr blaðamaður Steinar Braga hvort hann sé nú orðinn við allra skap? „Nei, ég ætla að halda áfram að vera cult-fígúra. Sama hvar ég er þá verð ég það alltaf. Engar áhyggjur." Og trúr þeim frómu fyrirheitum segir hann það áhyggjuefni að hafa fengið slíkt einróma lof og raun ber vitni fyrir Konur. „Já, það var krípí." - jbg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×