Kvikmyndin Iron Man 2 var frumsýnd í Los Angeles í gærkvöldi. Þar var sannkallaður stjörnufans enda er myndin drekkhlaðin þekktum leikurum auk þess að allir í bransaborginni eru gríðarlega spenntir að sjá afraksturinn.
Að öðrum ólöstuðum voru það leikkonurnar Scarlett Johanson og Gwyneth Paltrow sem stálu senunni. Þær mættu í sínu fínasta pússi og voru báðar í fötum frá Armani. Skiptar skoðanir eru um hvor hafði betur en margir hallast að Scarlett.
Robert Downey Jr. lét ekki leikkonurnar slá sig út af laginu og mætti gríðarlega hress til leiks og reytti af sér brandarana. Enda leikur hann aðalhlutverkið í myndinni, sem er spáð góðu gengi. Er jafnvel gælt við að hún slái sumarmyndamet sem nú er í höndum Batman Begins. Iron Man 2 er frumsýnd hér á landi um næstu helgi.
Myndir af Scarlett, Gwyneth og öðrum á frumsýningunni má sjá í safninu hér að neðan.
Scarlett og Gwyneth í Armani-slag á frumsýningu | Myndir
