Innlent

Illugi: Óvissunni hefur ekki verið eytt

Illugi Gunnarsson.
Illugi Gunnarsson.
Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, veit ekki hvort rannsókn yfirvalda á peningamarkaðssjóðum gömlu bankanna sé lokið. Hann veit því ekki hvenær hann snýr aftur til starfa á Alþingi.

Illugi ákvað um miðjan apríl á þessu ári að taka sér leyfi frá störfum á Alþingi í ljósi þess að rannsóknarnefnd Alþingis vísaði málum peningamarkaðssjóða til athugunar hjá sérstökum saksóknara. Illugi sat í stjórn Sjóðs 9 hjá Glitni á sínum tíma.

Rætt var við Illuga í þættinum Vikulokin á RÚV í dag. Hann sagðist ekki vita til þess að rannsókn yfirvalda á peningamarkaðssjóðunum væri lokið. „Ég bara veit það ekki og ég hef engan spurt af því. Ég mun ekki spyrja af því nema ég sjái einhverja sérstaka ástæðu til að inna eftir því.“

Þá sagði hann: „Mér fannst eðlilegt, og það var prinsipp ákvörðun hjá mér, að meðan slík staða væri uppi þá væri rétt að ég tæki mér frí frá þingmennskunni. Ég lýsti því jafnframt yfir að þegar að þessari óvissu væri eytt myndi ég snúa aftur til fyrri starfa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×