Tennisgoðið Roger Federer og kylfingurinn Tiger Woods eru miklir félagar. Federer er einn af fáum mönnum sem virðist hafa heyrt í Tiger eftir að líf hans nánast hrundi á einni nóttu.
Federer hefur greint frá því að hafa rætt við Tiger í síma og segir að eftir það spjall sé hann sannfærður um að það styttist í endurkomu Tigers á golfvöllinn. Hann segir einnig að Tiger eigi eftir að vera jafngóður og hann var.
„Slúðurblöðin hafa farið hamförum í þessu máli, styrktaraðilar flúið og svo framvegis. Ég hef alltaf verið meðvitaður um að ímynd sem maður byggir upp allan ferilinn getur hrunið á einni mínútu. Sú staðreynd hræðir mann en er engu að síður raunveruleiki," sagði Federer.
Woods hefur ekki keppt í golfi síðan í Ástralíu þann 15. nóvember á síðasta ári og hefur ekki sést opinberlega síðan hann keyrði á tré.
„Tiger þarf ró og fljótlega verður hann farinn að spila eins og við öll þekkjum hann," bætti Federer við.