Viðskipti innlent

Kaupþingsmenn vildu „taka út pening strax“

Sigríður Mogensen skrifar

Ráðabrugg lykilstjórnenda Kaupþings banka um lántöku út á hækkandi hlutabréfaverð lýsir þeirri fyrirætlun stjórnendanna að auðgast með því að taka "út peninginn strax," svo vitnað sé orðrétt í tölvupóst sem birtur er í rannsóknarskýrslu Alþingis.

Fréttastofa greindi frá því fyrir rúmri viku að útvaldir starfsmenn Kaupþings hafi fengið greidda milljarða króna í formi lána út á hækkandi hlutabréfaverð.

Þeir hafi veðsett bréf sín í bankanum og fengið greidd út lán án veða. Hreiðar Már Sigurðsson og Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnendur bankans hafi verið í þessum hópi. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur þetta skýrt fram, en nefndin birtir tölvupóst sem Magnús Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kaupþings í Lúxemborg og Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kaupþings í London sendu þann 12. desember 2006, þar segir:

"Sæll Siggi og Hreiðar. Þar sem Ármann er búinn að ræða þetta við ykkur höfum við talað okkur saman (samtök loyal CEOa) og komist að þessari hugmynd um bréf okkar í bankanum:

Við stofnum hver um sig eignarhaldsfélag og setjum öll bréf og lán í það félag. Við fáum viðbótarlán, 90 krónur fyrir hverjar 100 sem eru í félaginu - sem þýðir að við tökum út einhvern pening strax. Við fáum heimild fyrir að fá lánað meira ef gengi KB hækkar.....

... síðar í bréfinu segir ..."að bankinn myndi taka á sig fræðilegt tap ef að yrði."

Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar segir að tölvubréfið lýsi tiltekinni afstöðu meðal æðstu stjórnenda bankans um hvernig binda eigi saman hag hluthafa og stjórnenda. Tillagan felist í því að stjórnendur geti innleyst áhættulausan hagnað sinn með því að leggja stöðugt meiri áhættu á bankann og hluthafa. Þeir leggi til að eignarhaldsfélög taki við bréfum sem þegar hafi verið veðsett í bankanum og fái enn frekari lán frá bankanum.

Með þessu hafi þeir getað greitt arð út úr félögunum og veðsett alla þá hækkun sem orðið hafði á bréfunum síðan þau voru fyrst veðsett.

Í þessu sambandi nefnir rannsóknarnefndin félagið Kaupþing Capital Partners Fund sem nefndin segir að virðist hafa verið notað í sama tilgangi og Magnús og Ármann lýstu í tölvupósti sínum. Meðal eigenda Kaupþing Capital Partners voru Hreiðar Már Sigurðsson ehf. og The S Invest Trust, sem er í eigu Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns bankans.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×