Fyrir tuttugu árum, 11. febrúar 1990, var Nelson Mandela látinn laus úr fangelsinu sem hann hafði gist í 27 ár. Foreldrar mínir voru á flugvellinum í Jóhannesarborg þennan dag og lýstu orkunni og gleðinni sem ólgaði allt um kring á strætum og torgum, en líka hvítum hermönnum sem víggirtu flugvöllinn, vopnaðir hríðskotarifflum og schäfer-hundum, birtingarmynd ótta og angistar hvíta minnihlutans sem öldum saman hafði haldið völdum í Suður-Afríku með því að berja, þvinga og kúga meirihluta landsmanna.
Ég kom einu sinni í fangelsið þar sem Nelson Mandela sat stærstan hluta fangavistar sinnar, á Robben Island, eða Seley, skammt undan Góðrarvonarhöfða og Höfðaborg. Ég sá námurnar þar sem hann hjó kalkstein frá morgni til kvölds, kalkstein sem var svo ekki notaður til neins, eini tilgangurinn var að fá föngunum verkefni og tæra lungu þeirra og spilla heilsu svo þeir dæju. Fáir áttu afturkvæmt frá Robben Island. Ég sá svefnskálana sem voru svo þéttskipaðir að þegar menn lágu þar hlið við hlið gátu þeir ekki snúið sér við. Ég sá bréfin að heiman sem bárust á sex mánaða fresti og var búið að ritskoða og strika svo mikið í að þau voru ólæsileg. Leiðsögumennirnir um fangelsið voru fyrrverandi fangar og sögur þeirra fengu mann til að gráta og kúgast í einu.
Suður-Afríka er um margt merkilegt land en merkilegast af öllu er að þar skyldi engu blóði vera úthellt þegar valdahlutföllum var umturnað fyrir tuttugu árum. Að einn maður, maður sem hafði ærna ástæðu til að hefna sín, skyldi geta búið þannig um hnútana að árhundraða hatri var ekki svalað í blóði heldur með því að byggja minnisvarða og söfn.
Og hvernig var það mögulegt? Með því að hafa réttarhöld. Fortíðin var gerð upp og mönnum boðið að játa sakir sínar fyrir Sannleiksnefnd.
Nefndin útdeildi engum refsingum, mestu máli skipti að sannleikurinn kæmi upp á yfirborðið. Nelson Mandela og Desmond Tútú erkibiskup vissu að ekki væri mögulegt að fyrirgefa, sleppa takinu og halda áfram öðruvísi.
Nokkuð sem vert er að hafa í huga á Íslandi í dag á meðan við bíðum enn eftir skýrslunni okkar.