Gamla golfgoðsögnin Jack Nicklaus segist lítið skilja í þeirri ákvörðun Tiger Woods að spila ekki á neinu móti áður en hann mætir á Masters.
Woods mun eins og kunnugt er snúa aftur á golfvöllinn þegar fyrsta stórmót ársins, Masters, fer fram á Augusta-golfvellinum í apríl.
„Ég átti algjörlega von á því að Tiger myndi spila á Masters og það er gott mál fyrir mótið," sagði Nicklaus sem hefur unnið 18 stórmót.
„Ég skil samt ekkert í því að hann skuli ekki hita upp á öðrum mótum á undan. En Tiger er Tiger og hann kemur til baka þegar honum hentar. Hann er vissulega einstakur íþróttamaður en ef ég myndi koma svona kaldur inn á Augusta þá yrði ég ekki í toppformi."