Í tilkynningu frá Almannavörnum kemur fram að ferðamenn við Hólaskjól á Nyrða-Fjallabaki eru beðnir um að hafa vara á sér. Búast má við að flóðsins verði vart við veginn í Skaftárdal um klukkan hálf sjö.
Tilkynning frá Almannavörnum hljóðar svo:
"Þær fréttir voru að berast frá vatnamælingamönnum Veðurstofu Íslands að hlaup er að hefjast í Skaftá. Ekki er vitað á þessari stundu um stærð þess eða frá hvorum katlinum í Vatnajökli það kemur. Vatn er farið að hækka við Sveinstind og búast má við að hlaupsins verði vart við fjallaskálann Hólaskjól á Nyrðra-Fjallabaki um kl. 16.00 og að þess verði vart við veginn inn í Skaftárdal um kl. 18.30. Nokkru seinna verður flóðið komið að Kirkjubæjarklaustri. Haft hefur verið samband við íbúa í Skaftárdal en flætt getur yfir veginn þangað. Ekki er talin hætta á ferðum, lögregla fylgist grannt með málinu í samvinnu við Veðurstofu Íslands. Ferðamenn staddir við Hólaskjól á Nyrða-Fjallabaki eru beðnir að hafa vara á sér."