Afnám mismununar Ólafur Stephensen skrifar 12. júní 2010 06:00 Gærdagurinn var merkisdagur í sögu mannréttindabaráttu á Íslandi. Alþingi samþykkti frumvarp um að ein hjúskaparlög gildi fyrir samkynhneigða og gagnkynhneigða. Hjónaband samkynhneigðra para verður ekki lengur sett í annan flokk og kallað staðfest samvist; það heitir nú hjónaband að lögum. Þessi samhljóða samþykkt Alþingis er endapunktur á langri baráttu sem segja má að hafi hafizt með stofnun Samtakanna 78 fyrir 32 árum. Þá voru samkynhneigðir varla sýnilegir í íslenzku samfélagi. Þeir voru í felum og ef upp um kynhneigð þeirra komst gátu þeir lent í að missa vinnuna eða húsnæðið. Þeim voru valin hin verstu skammaryrði og ráðizt að þeim með bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi. Þeir gátu ekki skráð sig í sambúð, hvað þá gifzt eða ættleitt börn. Baráttumenn fyrir réttindum samkynhneigðra vissu sem er, að fordómar spretta oftast nær af fáfræði. Þeir lögðu því áherzlu á menntun og fræðslu, sem hefur skilað árangri. Almenn viðhorfsbreyting gagnvart samkynhneigð hefur orðið á Íslandi. Jafnréttisáfangarnir hafa síðan náðst einn af öðrum; sá fyrsti árið 1992 er mismunun varðandi samræðisaldur var afnumin. Fjórum árum síðar fengu samkynhneigðir að skrá sig í staðfesta samvist og bann við því að ráðast að fólki vegna kynhneigðar var sett í hegningarlög. Næst kom leyfi til stjúpættleiðinga, þá til tæknifrjóvgana og frumættleiðinga. Fyrir tveimur árum var trúfélögum veitt heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra. Þá spáðu margir því að þess yrði ekki langt að bíða að ein hjúskaparlög yrðu sett. Nú hefur það gengið eftir. Baráttumenn fyrir réttindum samkynhneigðra hafa oft fengið að heyra að nú sé nóg komið af réttarbótum. Ekki geti samkynhneigðir og gagnkynhneigðir setið við sama borð á öllum sviðum. En mannréttindi eru þess eðlis, að ekki er hægt að gefa af þeim afslátt. Löng barátta skilaði loksins fullum sigri í gær. Raddir um að með því að samkynhneigðir öðlist hlutdeild í hjónabandinu sé gildi þess fyrir gagnkynhneigð hjón með einhverjum hætti rýrt, eru hjáróma. Það styrkir hjónabandið sem samfélagsstofnun að fleiri fái notið kosta þess, en veikir það ekki. Þjóðkirkjan hefur átt í vandræðum með að opna hjónabandið fyrir samkynhneigðum. Málið hefur bögglazt óþarflega mikið fyrir kirkjunnar þjónum og afleiðingin orðið sú að margir samkynhneigðir og aðstandendur þeirra telja sig ekki velkomna í kirkjunni, sem gefur sig þó út fyrir að standa allri þjóðinni opin. Að undanförnu hefur komið skýrt í ljós að meirihluti er innan kirkjunnar fyrir því að ein hjúskaparlög gildi. Þeir prestar sem ekki treysta sér til að vígja samkynhneigð hjón geta hafnað því. Það er ekki vandamál, enda hafa samkynhneigðir ekkert til presta með þá skoðun að sækja. En kirkjan sem slík á nú að hætta vandræðaganginum og taka samkynhneigðum opnum örmum, í anda kærleiksboðskapar Krists, í stað þess að hengja sig í bókstafinn. Það hefur kirkjan gert áður í öðrum málum og orðið öllum til góðs. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Gærdagurinn var merkisdagur í sögu mannréttindabaráttu á Íslandi. Alþingi samþykkti frumvarp um að ein hjúskaparlög gildi fyrir samkynhneigða og gagnkynhneigða. Hjónaband samkynhneigðra para verður ekki lengur sett í annan flokk og kallað staðfest samvist; það heitir nú hjónaband að lögum. Þessi samhljóða samþykkt Alþingis er endapunktur á langri baráttu sem segja má að hafi hafizt með stofnun Samtakanna 78 fyrir 32 árum. Þá voru samkynhneigðir varla sýnilegir í íslenzku samfélagi. Þeir voru í felum og ef upp um kynhneigð þeirra komst gátu þeir lent í að missa vinnuna eða húsnæðið. Þeim voru valin hin verstu skammaryrði og ráðizt að þeim með bæði líkamlegu og andlegu ofbeldi. Þeir gátu ekki skráð sig í sambúð, hvað þá gifzt eða ættleitt börn. Baráttumenn fyrir réttindum samkynhneigðra vissu sem er, að fordómar spretta oftast nær af fáfræði. Þeir lögðu því áherzlu á menntun og fræðslu, sem hefur skilað árangri. Almenn viðhorfsbreyting gagnvart samkynhneigð hefur orðið á Íslandi. Jafnréttisáfangarnir hafa síðan náðst einn af öðrum; sá fyrsti árið 1992 er mismunun varðandi samræðisaldur var afnumin. Fjórum árum síðar fengu samkynhneigðir að skrá sig í staðfesta samvist og bann við því að ráðast að fólki vegna kynhneigðar var sett í hegningarlög. Næst kom leyfi til stjúpættleiðinga, þá til tæknifrjóvgana og frumættleiðinga. Fyrir tveimur árum var trúfélögum veitt heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra. Þá spáðu margir því að þess yrði ekki langt að bíða að ein hjúskaparlög yrðu sett. Nú hefur það gengið eftir. Baráttumenn fyrir réttindum samkynhneigðra hafa oft fengið að heyra að nú sé nóg komið af réttarbótum. Ekki geti samkynhneigðir og gagnkynhneigðir setið við sama borð á öllum sviðum. En mannréttindi eru þess eðlis, að ekki er hægt að gefa af þeim afslátt. Löng barátta skilaði loksins fullum sigri í gær. Raddir um að með því að samkynhneigðir öðlist hlutdeild í hjónabandinu sé gildi þess fyrir gagnkynhneigð hjón með einhverjum hætti rýrt, eru hjáróma. Það styrkir hjónabandið sem samfélagsstofnun að fleiri fái notið kosta þess, en veikir það ekki. Þjóðkirkjan hefur átt í vandræðum með að opna hjónabandið fyrir samkynhneigðum. Málið hefur bögglazt óþarflega mikið fyrir kirkjunnar þjónum og afleiðingin orðið sú að margir samkynhneigðir og aðstandendur þeirra telja sig ekki velkomna í kirkjunni, sem gefur sig þó út fyrir að standa allri þjóðinni opin. Að undanförnu hefur komið skýrt í ljós að meirihluti er innan kirkjunnar fyrir því að ein hjúskaparlög gildi. Þeir prestar sem ekki treysta sér til að vígja samkynhneigð hjón geta hafnað því. Það er ekki vandamál, enda hafa samkynhneigðir ekkert til presta með þá skoðun að sækja. En kirkjan sem slík á nú að hætta vandræðaganginum og taka samkynhneigðum opnum örmum, í anda kærleiksboðskapar Krists, í stað þess að hengja sig í bókstafinn. Það hefur kirkjan gert áður í öðrum málum og orðið öllum til góðs.