Eftirlegukindur Guðmundur Andri Thorsson skrifar 15. nóvember 2010 06:00 Tvö mál sem neita að fara. Tvö mál sem hanga yfir okkur eins og eftirlegukindur úr mislukkuðu partíi sem við höfum ekki þrek til að reka heim þótt við komumst ekki til að taka til fyrir þeim. Tvö mál, og ég finn hvernig tvö hár grána við það eitt að skrifa þau: Baugsmálið og Íraksmálið. Lærdómarnir af þessum málum skipta samt máli um það hvað við ætlum að verða þegar við verðum stór. Keppt í dauðasyndumJónína Benediktsdóttir segir frá sinni hlið af Baugsmálum í nýrri bók. Þar öðlumst við innsýn í vissa kima mannlífisins á þeirri trylltu öld sem nú er til allrar hamingju liðin og kemur vonandi aldrei til baka, þegar „íslenska efnahagsundrið" tifaði enn og Ísland var föðurland kapítalismans með þeim afleiðingum að vænsta fólk fór að haga sér eins og það hefði fengið loftstein í hausinn. Af fréttum að dæma virðist mega draga frásögn Jónínu saman í setningu sem önnur völva á öðrum tíma sagði: „Hart er í heimi, hórdómur mikill." Og ekki kemur mér til hugar að draga neitt í efa af því sem Jónína hefur að segja okkur, og hvað þá að dæma hana og samferðamenn hennar fyrir ýmsar yfirsjónir í þessum feiknum öllum. En við verðum að gjalda varhug við meginniðurstöðu Jónínu: að allt væri hér gott ef ekki hefði verið fyrir Baugsmenn og meðreiðarsveina þeirra. Ég held að það sé mikilvægt að draga rétta lærdóma af þessum ósköpum öllum - það er nú eiginlega það minnsta sem hægt er að gera. Við höfum alltaf átt og munum alltaf eiga snaróða stráka hér á landi og menn sem voru óvandir að meðulum í viðskiptum. En það var ekki fyrr en upp á tíunda áratug síðustu aldar sem aðstæður hér á landi buðu slíkum náungum upp á þær aðstæður að þeir gátu látið að sér kveða svo að um munaði. Hér var óða-kapítalismi innleiddur af ósegjanlegu gáleysi. Óða-kapítalisma fylgja óðir kapítalistar. Hömlulaus markaðshyggja virkjar tiltekna mannlega eiginleika sem búa í okkur öllum í mismiklum mæli en lög og reglur hefta og siðaboð, trúarbrögð og önnur hugræktarkerfi kenna okkur að bæla við eðlilegar kringumstæður. Þetta voru ekki eðlilegar kringumstæður. Þetta var okkar þriðja ríki. Ofdramb, ágirnd, ofát, öfund, ofsi, hóglífi, losti … Ekkert af þessu fundu íslensku útrásarvíkingarnir upp - en aðstæðurnar, samfara óvenju einbeittri glámskyggni á stöðu Íslands í heiminum, leiddu til þess að hér voru haldnir ólympíuleikarnir í dauðasyndunum sjö. Íslenska efnahags(t)undriðEkki skal gert lítið úr afglöpum Baugsmanna og viðskiptalegra venslamanna þeirra. En rót hrunsins liggur í hinu svokallaða „íslenska efnhagsundri" sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson útmálaði skilmerkilega í þættinum Ísland í dag árið 2007 og taldi eiga sér þá skýringu að virkjað hefði verið fjármagn sem „áður lá dautt: fiskistofnarnir hefðu verið „verðlausir áður fyrr", það er að segja þeir fiskar sem óveiddir synda um í sjónum og eiga sig auðvitað bara sjálfir, eru þannig lagað „verðlausir" rétt eins og allt annað sem ekki er vara á markaði. Fiskistofnarnir, sagði Hannes, hefðu verið „óframseljanlegir, óveðhæfir" en seinna orðið er hér lykilorð: kvótahafar komust sem sé upp með að veðsetja fyrir svimandi upphæðir þessa óveiddu fiskistofna - óorðin verðmæti - til að eyða þeim peningum í „útrás". Hitt sem Hannes nefndi í hinu fræga sjónvarpsviðtali sem meginskýringu á íslenska „efnahagsundrinu" var einkavæðingin; ríkisfyrirtækin „þau lágu dauð" og fyrirtækin voru seld og „þá verður til fjármagn". Kögun, Frumherji og önnur Framsóknarfyrirtæki eru dæmi um þetta, og bankarnir… Nú vitum við að þetta var allt lánsfé að utan. Ekki síst frá Þjóðverjum sem gerðu sér ekki grein fyrir því að allt í einu var ekki lengur hægt að treysta Íslendingum því þeir höfðu fengið loftstein frjálshyggjunnar í hausinn. Hinn staðfastiSömu menn og skópu þetta kerfi stóðu fyrir því að setja Ísland á lista „hinna viljugu þjóða". Davíð Oddsson ritar um málið í Reykjavíkurbréfi og heimtar að Broddi Broddason lesi í útvarpinu það heiti sem hann sjálfur gaf þessum lista - „listi hinna staðföstu þjóða". Raunar er staðfesta Davíðs slík að hann virðist alls ekki úrkula vonar um að kjarnorkuvopn finnist í Írak. En vitaskuld var þessi stuðningur Íslands við bröltið á Bush og Blair bara vitlaus spekúlasjón og átti að tryggja að Bandaríkjamenn héldu hér úti herstöð enn um sinn. Íslenskir ráðamenn létu undir höfuð leggjast að búa þjóðina undir hina óhjákvæmilegu brottför bandaríska hersins. Stundum er eins og þeir séu enn ekki búnir að fatta það, haldi að Bandaríkjamenn snúi bráðum aftur hingað með her sinn og auð handa hinum útvöldu - hinum staðföstu. Á slíkum órum byggist andstaða þeirra við aðild að Evrópusambandinu, sem þeir telja sósíalískt samsæri, sem er ámóta firra og hjá hinum eftirlegukindum kalda stríðsins, gömlu kommunum, að það sé samsæri heimsvaldasinnaðra auðvaldsríkja. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Ölmusuhagkerfið Unnur Rán Reynisdóttir Skoðun Eru vaxtarmörkin vandinn? Dóra Björt Guðjónsdóttir Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Fyrirmyndarstjórn Viðreisnar og Samfylkingar á Reykjavíkurborg? Diljá Mist Einarsdóttir Skoðun Búum til „vandamál“ – leysum það með samræmdum prófum Árelía Eydís Guðmundsdóttir Skoðun
Tvö mál sem neita að fara. Tvö mál sem hanga yfir okkur eins og eftirlegukindur úr mislukkuðu partíi sem við höfum ekki þrek til að reka heim þótt við komumst ekki til að taka til fyrir þeim. Tvö mál, og ég finn hvernig tvö hár grána við það eitt að skrifa þau: Baugsmálið og Íraksmálið. Lærdómarnir af þessum málum skipta samt máli um það hvað við ætlum að verða þegar við verðum stór. Keppt í dauðasyndumJónína Benediktsdóttir segir frá sinni hlið af Baugsmálum í nýrri bók. Þar öðlumst við innsýn í vissa kima mannlífisins á þeirri trylltu öld sem nú er til allrar hamingju liðin og kemur vonandi aldrei til baka, þegar „íslenska efnahagsundrið" tifaði enn og Ísland var föðurland kapítalismans með þeim afleiðingum að vænsta fólk fór að haga sér eins og það hefði fengið loftstein í hausinn. Af fréttum að dæma virðist mega draga frásögn Jónínu saman í setningu sem önnur völva á öðrum tíma sagði: „Hart er í heimi, hórdómur mikill." Og ekki kemur mér til hugar að draga neitt í efa af því sem Jónína hefur að segja okkur, og hvað þá að dæma hana og samferðamenn hennar fyrir ýmsar yfirsjónir í þessum feiknum öllum. En við verðum að gjalda varhug við meginniðurstöðu Jónínu: að allt væri hér gott ef ekki hefði verið fyrir Baugsmenn og meðreiðarsveina þeirra. Ég held að það sé mikilvægt að draga rétta lærdóma af þessum ósköpum öllum - það er nú eiginlega það minnsta sem hægt er að gera. Við höfum alltaf átt og munum alltaf eiga snaróða stráka hér á landi og menn sem voru óvandir að meðulum í viðskiptum. En það var ekki fyrr en upp á tíunda áratug síðustu aldar sem aðstæður hér á landi buðu slíkum náungum upp á þær aðstæður að þeir gátu látið að sér kveða svo að um munaði. Hér var óða-kapítalismi innleiddur af ósegjanlegu gáleysi. Óða-kapítalisma fylgja óðir kapítalistar. Hömlulaus markaðshyggja virkjar tiltekna mannlega eiginleika sem búa í okkur öllum í mismiklum mæli en lög og reglur hefta og siðaboð, trúarbrögð og önnur hugræktarkerfi kenna okkur að bæla við eðlilegar kringumstæður. Þetta voru ekki eðlilegar kringumstæður. Þetta var okkar þriðja ríki. Ofdramb, ágirnd, ofát, öfund, ofsi, hóglífi, losti … Ekkert af þessu fundu íslensku útrásarvíkingarnir upp - en aðstæðurnar, samfara óvenju einbeittri glámskyggni á stöðu Íslands í heiminum, leiddu til þess að hér voru haldnir ólympíuleikarnir í dauðasyndunum sjö. Íslenska efnahags(t)undriðEkki skal gert lítið úr afglöpum Baugsmanna og viðskiptalegra venslamanna þeirra. En rót hrunsins liggur í hinu svokallaða „íslenska efnhagsundri" sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson útmálaði skilmerkilega í þættinum Ísland í dag árið 2007 og taldi eiga sér þá skýringu að virkjað hefði verið fjármagn sem „áður lá dautt: fiskistofnarnir hefðu verið „verðlausir áður fyrr", það er að segja þeir fiskar sem óveiddir synda um í sjónum og eiga sig auðvitað bara sjálfir, eru þannig lagað „verðlausir" rétt eins og allt annað sem ekki er vara á markaði. Fiskistofnarnir, sagði Hannes, hefðu verið „óframseljanlegir, óveðhæfir" en seinna orðið er hér lykilorð: kvótahafar komust sem sé upp með að veðsetja fyrir svimandi upphæðir þessa óveiddu fiskistofna - óorðin verðmæti - til að eyða þeim peningum í „útrás". Hitt sem Hannes nefndi í hinu fræga sjónvarpsviðtali sem meginskýringu á íslenska „efnahagsundrinu" var einkavæðingin; ríkisfyrirtækin „þau lágu dauð" og fyrirtækin voru seld og „þá verður til fjármagn". Kögun, Frumherji og önnur Framsóknarfyrirtæki eru dæmi um þetta, og bankarnir… Nú vitum við að þetta var allt lánsfé að utan. Ekki síst frá Þjóðverjum sem gerðu sér ekki grein fyrir því að allt í einu var ekki lengur hægt að treysta Íslendingum því þeir höfðu fengið loftstein frjálshyggjunnar í hausinn. Hinn staðfastiSömu menn og skópu þetta kerfi stóðu fyrir því að setja Ísland á lista „hinna viljugu þjóða". Davíð Oddsson ritar um málið í Reykjavíkurbréfi og heimtar að Broddi Broddason lesi í útvarpinu það heiti sem hann sjálfur gaf þessum lista - „listi hinna staðföstu þjóða". Raunar er staðfesta Davíðs slík að hann virðist alls ekki úrkula vonar um að kjarnorkuvopn finnist í Írak. En vitaskuld var þessi stuðningur Íslands við bröltið á Bush og Blair bara vitlaus spekúlasjón og átti að tryggja að Bandaríkjamenn héldu hér úti herstöð enn um sinn. Íslenskir ráðamenn létu undir höfuð leggjast að búa þjóðina undir hina óhjákvæmilegu brottför bandaríska hersins. Stundum er eins og þeir séu enn ekki búnir að fatta það, haldi að Bandaríkjamenn snúi bráðum aftur hingað með her sinn og auð handa hinum útvöldu - hinum staðföstu. Á slíkum órum byggist andstaða þeirra við aðild að Evrópusambandinu, sem þeir telja sósíalískt samsæri, sem er ámóta firra og hjá hinum eftirlegukindum kalda stríðsins, gömlu kommunum, að það sé samsæri heimsvaldasinnaðra auðvaldsríkja.