Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG mun líklega leiða Íslandsmótið í golfi í Kiðjabergi eftir fyrsta daginn en hann var að koma í hús á 68 höggum, eða þrem undir pari, sem er vallarmet.
Birgir Leifur lék glæsilegt golf í dag og fékk þrjá fugla á fyrstu fjórum holunum. Alls fékk hann sex fugla í dag og þrjá skolla.
Sigurpáll Geir Sveinsson lék einnig mjög vel í dag en hann lauk keppni á 69 höggum og er því höggi á eftir Birgi Leifi.
Af þeim kylfingum sem hafa lokið keppni þá koma næstir þeir Sigmundur Einar Másson og Heiðar Davíð Bragason á 71 höggi.
Hlynur Geir Hjartarson, Ólafur Már Sigurðsson, Örn Ævar Hjartarson og Hrafn Guðlaugsson léku allir á 72 höggum.
Íslandsmeistarinn frá því í fyrra, Ólafur Björn Loftsson, fann sig ekki í dag og skilaði skorkorti upp á 76 högg. Hann þarf því heldur betur að taka sig á ef hann ætlar að verja titilinn.