Bjarni Skúlason, sem keppir í -90 kg flokki, vann óvæntan sigur í opna flokknum á Íslandsmeistaramótinu í júdó sem fram fór í Laugardalshöll í gær.
Bjarni lagði hinn 125 kílóa þunga Þormóð Árna Jónsson á leið sinni í úrslitaglímuna. Þar mætti hann Vopnafjarðartröllinu Birni Sigurðarsyni sem telur rúm 130 kíló. Bjarni gerði sér lítið fyrir og skellti Birni líka þrátt fyrir gríðarlegan þyngdarmun.
Þormóður Árni, sem hefur verið í fararbroddi íslenskra júdómanna síðustu ár, náði þó gulli í +100 kílóa flokki þar sem hann lagði Björn af velli. Vopnafjarðartröllið því með tvö silfur að þessu sinni sem verður að teljast gott hjá fertugum manni.
Í kvennaflokki var það síðan Anna Víkingsdóttir sem átti daginn og sigraði tvöfalt. Hún vann bæði í -78 kg flokku sem og í opnum flokki kvenna.