Fastir pennar

Svik samábyrgðarinnar

Þorvaldur Gylfason skrifar
Þegar Berlínarmúrinn var brotinn niður 1989 og veldi kommúnista hrundi eftir það til grunna um alla Austur-Evrópu og Sovétríkin, beið þjóðanna þar risavaxið verkefni. Þær þurftu að reisa frjálst samfélag á rústum kommúnismans og taka upp markaðsbúskap í stað miðstjórnar, lýðræði í stað einræðis. Þetta tókst, en misvel. Ein helzta hindrunin í vegi umskiptanna var íhaldssamt hugarfar, fast í viðjum gamalla boða og banna, gamals ótta, gamallar spillingar. Og þá gengu hinir óttalausu á lagið og sölsuðu undir sig eigur almennings. Önnur hindrun var gömlu kommúnistarnir: hvað átti að gera við þá? Átti að draga þá til ábyrgðar á óhæfuverkunum, sem þeir höfðu fyrirskipað eða framið? Þeir höfðu ekki bara brotið mannréttindi, heldur einnig lagt líf mikils fjölda fólks í rúst. Áttu þeir að sleppa fyrir þá sök, að þeir höfðu sjálfir með ofbeldi breytt lögunum sér í hag, svo að eftir þeirra lögum voru óhæfuverkin lögleg? Hvernig átti að taka á þessu?



Ábyrgð að lögumÝmsar leiðir voru farnar. Sjáseskúhjónin í Rúmeníu, Nikolaí og Elena, voru drepin án dóms og laga. Erich Honecker, næstsíðasti leiðtogi Austur-Þýzkalands, var dreginn fyrir dóm og ákærður fyrir morð á flóttamönnum við múrinn og ýmis efnahagsbrot, en honum var sleppt vegna veikinda, hann flúði til Síle og gekk þar gæsagang fram í andlátið. Eftirmaður hans, Egon Krenz, átti ekki slíku heilsuleysi að fagna. Hann var dæmdur í sex og hálfs árs fangelsi. Fleiri dómar gengu. Þjóðverjar sýndu strax eftir stríð, að þeir kunna að horfast í augu við sjálfa sig og skrá sögu sína rétt. Japanar kunna það ekki.

Í Póllandi var Wojciech Jaruzelski hershöfðingi, síðasti kommúnistaleiðtoginn, dreginn fyrir dóm eftir dúk og disk. Hann varði sig með því, að hann hefði neyðzt til að taka völdin í sínar hendur, því að ella hefði Rauði herinn ráðizt inn í landið. Pólverjar hafa verið á báðum áttum, en nú fjölgar þeim, sem telja rétt að svipta hulunni af fortíðinni og refsa þeim, sem brutu af sér. Þetta fólk segir: við þurftum fyrsta kastið að verja öllum okkar kröftum til að reisa Pólland við, en nú er því verki lokið, landið er komið inn í Evrópusambandið, svo að nú getum við snúið okkur að uppgjörinu, sem við slógum á frest. Nýlega ákvað pólska þingið að skerða eftirlaun Jaruzelskis og 40.000 annarra, sem unnu fyrir pólsku leyniþjónustuna. En ekki hvað? Hví skyldi þetta fólk fá að halda sjálfteknum eftirlaunum fyrir að leggja landið í rúst? Á heildina litið hefur fáum verið refsað úr hópi þeirra, sem báru mesta ábyrgð á mannréttindabrotum og öðrum glæpum kommúnista í Mið- og Austur-Evrópu og Sovétríkjunum. Í Austur-Evrópu og Eystrasaltslöndunum reyna menn þó að skrá söguna rétt. Í Vilníus, höfuðborg Litháens, hefur pyntingarklefum leyniþjónustunnar KGB verið breytt í safn, svo að fortíðin gleymist síður.



„Stjórnmálahagsmunir ráða öllu“Íslendingum ríður einnig á að leysa sig úr viðjum gamals hugarfars og hefja sig yfir flokkadrætti. Augu umheimsins hvíla á landinu og uppgjöri þjóðarinnar við erlenda lánardrottna og eigin fortíð. Hvað sjá öll þessi erlendu augu? Þau sjá land, þar sem menn fjargviðrast yfir flísunum í augum andstæðinga sinna og þykjast ekki sjá bjálkana í augum eigin flokksmanna. Hefur nokkur alþingismaður Sjálfstæðisflokksins fett fingur út í Landsbankann? - bankann, sem færði okkur IceSave. Hefur nokkur forustumaður þess flokks óskað eftir skýringum á fjármálum Björgólfs Guðmundssonar? Gjaldþrot Björgólfs skildi lánardrottna hans eftir með fallnar kröfur, sem nema þrjátíuþúsundföldum árslaunum lögregluþjóns. Þar af nemur ógreidd skuld hans við gamla Landsbankann, sem hann átti og stjórnaði, tuttuguþúsundföldum árslaunum lögregluþjóns. Landsbankinn, með framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins við hlið Björgólfs í bankaráðinu, lánaði Björgólfi sem sagt tuttuguþúsundföld árslaun lögregluþjóns án haldbærra veða. Þögn sjálfstæðismanna um þennan þátt hrunsins er hávær. Framkvæmdastjórinn situr nú í miðstjórn flokksins.

Nú þyrfti Sjálfstæðisflokkurinn að eiga mann á borð við Bjarna Benediktsson. Hann skrifaði Pétri bróður sínum 1934: „Bersýnilegt er, að þjóðlífið er sjúkt. Kemur það ekki einungis fram í svikunum sjálfum, heldur einnig því, að raunverulega „indignation" er hvergi að finna hjá ráðandi mönnum, persónuleg vild eða óvild og stjórnmálahagsmunir ráða öllu, á báða bóga, um hver afstaða er tekin. Slíkt fær ekki staðizt til lengdar. Dagar linkindarinnar og svika samábyrgðarinnar hljóta að fara að styttast."





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×