Birgir Leifur og Valdís Þóra Íslandsmeistarar í holukeppni

Birgir Leifur Hafþórsson (GKG) og Valdís Þóra Jónsdóttir (GL) fögnuðu sigri í dag er úrslitaleikirnir um Íslandsmeistaratitilinn í holukeppni fóru fram á Garðavelli á Akranesi. Þau eru bæði frá Akranesi og ljóst að þeim líður vel á uppeldisvellinum. Birgir Leifur og Þórður Rafn Gissurarson (GR) voru jafnir eftir 18 holur og réðust úrslitin í bráðabana. Þeir léku fyrstu holuna og þar fékk Birgir Leifur fugl en Þórður rétt missti af fuglinum. Valdís hafði betur gegn Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur (GR) í úrslitaleik. Guðjón Henning Hákonarson (GKG) sigraði Arnar Snær Hákonarson (GR) í úrslitaleik um þriðja sætið hjá körlunum og hjá konunum náði Guðrún Brá Björgvinsdóttir bronsinu eftir sigur á Ragnhildi Sigurðardóttur (GR).