Að þora ekki að veðja á hið þekkta Steinunn Stefánsdóttir skrifar 8. júní 2010 06:00 Nýliðnar sveitarstjórnarkosningar sýndu glöggt að íslenskir kjósendur hafa misst trú á stjórnmálamönnum. Um það ber vitni lítil kosningaþátttaka, einkum í þeim sveitarfélögum þar sem eingöngu voru í boði listar gömlu flokkanna. Sömuleiðis árangur nýrra framboða, þar á meðal grínframboða, og talsvert miklar útstrikanir og tilfæringar á frambjóðendum á listum. Yfir 40 prósent kjósenda í Reykjavík vildi frekar verja atkvæði sínu til flokks sem þeir vissu ekkert fyrir hvað stæði heldur en að kjósa einn hinna gömlu flokka sem þeir töldu sig líklega vita of vel fyrir hvað stæðu því ekki buðu þeir upp á endurnýjun svo nokkru næmi, utan Framsóknarflokks sem náði þó engum slagkrafti. Og hvernig bregðast svo flokkarnir við þessum niðurstöðum? Í Reykjavík reynir Samfylkingin að vera hress með Besta flokknum og hefur kynnt myndun meirihluta þar sem engin stefnumál eru ljós en upplýst hver verður borgarstjóri og formaður borgarráðs. Á sama tíma engist Sjálfstæðisflokkurinn vegna styrkjamála Guðlaugs Þórs. Guðlaugur neitar að víkja og sveit hans ver hann vasklega sem út af fyrir sig er skiljanlegt. Hitt er síður skiljanlegt að forysta flokksins skuli kjósa að beina blinda auganu að málinu, vitandi þó að áframhaldandi þingseta Guðlaugs Þórs hlýtur að laska flokkinn verulega og til langs tíma. Formaðurinn hefur reynt að varpa frá sér boltanum með því að segja að það sé kjósenda að velja hvort þeir veita Guðlaugi áframhaldandi umboð. Nú er það svo, eins og kunnugt er, að ekki er hægt að gera ráð fyrir þingkosningum fyrr. Viðbrögð formannsins bera þannig vott um að hann ráði ekki við að taka ábyrgð á flokki sínum og þeim sem til ábyrgðar er kjörnir í hans nafni. Rök þingflokksformannsins um að ekki megi nota mælistiku ársins 2010 á atburði sem áttu sér stað árið 2006 eru ekki heldur vænleg til árangurs fyrir flokkinn. Er það ekki einmitt það sem er að gerast í íslensku samfélagi um þessar mundir að við erum að hafna þeim mælikvörðum sem þóttu góðir og gildir árið 2006 og á árunum þar í kring, í það minnsta í stórum hluta samfélagsins og stjórnmálaheimsins? Það er einmitt þess vegna sem krafan um endurnýjun og breytingar er svona sterk. Þessi skilaboð verður Guðlaugur Þór að skilja og taka til sín. Formaður hans og þingflokksformaður verða að liðsinna honum við að taka þá einu ákvörðun sem hægt er að taka, jafnvel þótt þar með hverfi brjóstvörn fleiri flokkssystkina sem einnig þáðu styrki, þótt ekki væri í sama mæli og Guðlaugur. Sá fjáraustur fyrirtækja og efnafólks í prófkjörsbaráttu innan stjórnmálaflokka sem viðgekkst hér er hluti af fortíð sem skal kært kvödd. Til þess að nægileg reisn sé yfir þeirri kveðju verða þeir stjórnmálamenn sem ekki standast siðferðiskröfur ársins 2010 að yfirgefa sviðið og hleypa að nýju fólki með ný viðmið. Einungis þannig er von til þess að stjórnmálalífið endurheimti það traust að almenningur leggi í að kjósa þá flokka sem hann veit fyrir hvað standa. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Steinunn Stefánsdóttir Mest lesið „Forðastu múslímana,“ sögðu öfgahægrimenn mér Guðni Freyr Öfjörð Skoðun Nýr kafli í sögu ESB Michael Mann Skoðun Framúrskarandi þjónusta byggir upp traust á fyrirtækjum Ingibjörg Valdimarsdóttir Skoðun Gott knatthús veldur deilum Stefán Már Gunnlaugsson Skoðun Opið bréf til valkyrjanna þriggja Björn Sævar Einarsson Skoðun Halldór 22.12.2024 Halldór Baldursson Halldór Athugasemdir við eignaumsýslu Landsbanka Íslands Þorsteinn Sæmundsson Skoðun Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins Jón Frímann Jónsson Skoðun Skúffuskýrslan sem lifði af Linda Heiðarsdóttir Skoðun Í aðdraganda jóla – hugleiðing Unnur Hrefna Jóhannsdóttir Skoðun
Nýliðnar sveitarstjórnarkosningar sýndu glöggt að íslenskir kjósendur hafa misst trú á stjórnmálamönnum. Um það ber vitni lítil kosningaþátttaka, einkum í þeim sveitarfélögum þar sem eingöngu voru í boði listar gömlu flokkanna. Sömuleiðis árangur nýrra framboða, þar á meðal grínframboða, og talsvert miklar útstrikanir og tilfæringar á frambjóðendum á listum. Yfir 40 prósent kjósenda í Reykjavík vildi frekar verja atkvæði sínu til flokks sem þeir vissu ekkert fyrir hvað stæði heldur en að kjósa einn hinna gömlu flokka sem þeir töldu sig líklega vita of vel fyrir hvað stæðu því ekki buðu þeir upp á endurnýjun svo nokkru næmi, utan Framsóknarflokks sem náði þó engum slagkrafti. Og hvernig bregðast svo flokkarnir við þessum niðurstöðum? Í Reykjavík reynir Samfylkingin að vera hress með Besta flokknum og hefur kynnt myndun meirihluta þar sem engin stefnumál eru ljós en upplýst hver verður borgarstjóri og formaður borgarráðs. Á sama tíma engist Sjálfstæðisflokkurinn vegna styrkjamála Guðlaugs Þórs. Guðlaugur neitar að víkja og sveit hans ver hann vasklega sem út af fyrir sig er skiljanlegt. Hitt er síður skiljanlegt að forysta flokksins skuli kjósa að beina blinda auganu að málinu, vitandi þó að áframhaldandi þingseta Guðlaugs Þórs hlýtur að laska flokkinn verulega og til langs tíma. Formaðurinn hefur reynt að varpa frá sér boltanum með því að segja að það sé kjósenda að velja hvort þeir veita Guðlaugi áframhaldandi umboð. Nú er það svo, eins og kunnugt er, að ekki er hægt að gera ráð fyrir þingkosningum fyrr. Viðbrögð formannsins bera þannig vott um að hann ráði ekki við að taka ábyrgð á flokki sínum og þeim sem til ábyrgðar er kjörnir í hans nafni. Rök þingflokksformannsins um að ekki megi nota mælistiku ársins 2010 á atburði sem áttu sér stað árið 2006 eru ekki heldur vænleg til árangurs fyrir flokkinn. Er það ekki einmitt það sem er að gerast í íslensku samfélagi um þessar mundir að við erum að hafna þeim mælikvörðum sem þóttu góðir og gildir árið 2006 og á árunum þar í kring, í það minnsta í stórum hluta samfélagsins og stjórnmálaheimsins? Það er einmitt þess vegna sem krafan um endurnýjun og breytingar er svona sterk. Þessi skilaboð verður Guðlaugur Þór að skilja og taka til sín. Formaður hans og þingflokksformaður verða að liðsinna honum við að taka þá einu ákvörðun sem hægt er að taka, jafnvel þótt þar með hverfi brjóstvörn fleiri flokkssystkina sem einnig þáðu styrki, þótt ekki væri í sama mæli og Guðlaugur. Sá fjáraustur fyrirtækja og efnafólks í prófkjörsbaráttu innan stjórnmálaflokka sem viðgekkst hér er hluti af fortíð sem skal kært kvödd. Til þess að nægileg reisn sé yfir þeirri kveðju verða þeir stjórnmálamenn sem ekki standast siðferðiskröfur ársins 2010 að yfirgefa sviðið og hleypa að nýju fólki með ný viðmið. Einungis þannig er von til þess að stjórnmálalífið endurheimti það traust að almenningur leggi í að kjósa þá flokka sem hann veit fyrir hvað standa.