Sport

Viktor og Thelma Rut meistarar í fjölþraut

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fyrsti hluti Íslandsmótsins í áhaldafimleikum fór fram í gær er keppt var í fjölþraut. Viktor Kristmannsson varð meistari í tíunda skiptið á ferlinum en í kvenna flokki bar Thelma Rut Hermannsdóttir, Gerplu, sigur úr býtum.

Þetta var níunda árið í röð sem að Viktor verður meistari og tíunda skiptið alls. Hann hafði betur eftir harða keppni við bróður sinn, Róbert, sem varð að sætta sig við annað sætið. Bjarki Ásgeirsson, Ármanni, varð svo í þriðja sæti.

Thelma Rut hlaut samtals 47,95 stig, rúmum þremur stigum meira en Embla Jóhannsdóttir sem keppir fyrir Gróttu og varð í öðru sæti. Dominiqua Belanyi, Gróttu, varð þriðja með 45,45 stig.

Thelma Rut náði bestum árangri í þremur greinum af fjórum - jafnvægislá og í stökk- og gólfæfingum. Embla náði flestum stigum í keppni í tvíslá.

Alls var keppt í sex greinum í karlaflokki og náði Viktor bestum árangri í þremur og Róbert í tveimur. Róbert og Bjarki voru svo eftir og jafnir að stigum í tvíslá.

Viktor fékk flest stig í æfingum á boga, hringjum og í stökki en Róbert á gólfi og á svifrá. Samtals fékk Viktor 78,05 stig en Róbert 77,35. Bjarki hlaut samtals 74,8 stig.

Í dag heldur keppni áfram og verður þá keppt í einstökum áhöldum. Keppni hefst klukkan 13.10 en verðlaunaafhending klukkan 16.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×