Gólið í afsagnarkórnum Sif Sigmarsdóttir skrifar 30. mars 2011 06:00 Þá byrjar það enn á ný, rammfalskt og taktlaust gólið í afsagnarkór stjórnarandstöðunnar. Um er að ræða endurflutning á verkinu „Jóhanna Sig. á að segja af sér“. Ég tel að ég sé ekki sú eina sem kysi heldur að sitja í gegnumtrekk í hálfkláraðri Hörpunni undir Niflungahring Wagners í flutningi skólahljómsveitar leikskólans Grænuborgar. Þótt ég hafi á mínum yngri árum skráð mig í stjórnmálaflokk, sem ég valdi – eins og skynsömum aktivista ber – eftir því hvar bestu partíin var að finna, er atkvæði mitt allra flokkanna að keppa um. Fyrir mér er pólitík ekki eins og fótbolti þar sem áhangendur styðja lið sitt óháð frammistöðu. Sem gegnheill tækifærissinni krossa ég einfaldlega við þann sem býður best. Því fæ ég með engu móti skilið strategíu stjórnarandstöðunnar. Eins áfjáð og hún virðist í völd gerir hún ekkert til að sýna fram á að hún sé mögulegur staðgengill þeirrar ríkisstjórnar sem nú starfar. Í stað heildstæðrar og ígrundaðrar stefnu miðlar hún litlu öðru til kjósenda en ósk sinni um að komast til valda með upphrópunum um að núverandi stjórn beri að víkja. Ríkisstjórnin á að segja af sér vegna Icesave, aðgerðaleysis, góðs gengis Sjálfstæðisflokksins í einni skoðanakönnun, efnahagsástandsins, af „ýmsum ástæðum“ (skv. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni) og nú síðast vegna þess að Jóhanna Sigurðardóttir réði í starf hjá forsætisráðuneytinu aðila sem ráðgjafar töldu hæfastan til að gegna stöðunni. Hefur stjórnarandstaðan aldrei heyrt dæmisöguna um drenginn sem hrópaði úlfur, úlfur? Vissulega er miður að betur hefði mátt standa að ráðningunni í forsætisráðuneytinu. Það að halda því fram að málið beri vott um að forsætisráðherra, kona sem áratugum saman hefur verið einn ötulasti baráttumaður fyrir jafnrétti kynjanna, láti sig skyndilega jafnréttismál engu varða og eigi að segja af sér er firra. Það þýðir þó ekki að stjórnarandstaðan megi ekki gera sér mat úr uppákomunni. Hvers vegna útlistar hún ekki fyrir okkur kjósendum hvernig hún myndi betrumbæta ráðningarferli innan stjórnsýslunnar kæmist hún til valda? Innantóm köll stjórnarandstöðunnar um afsögn ríkisstjórnarinnar og forsætisráðherra hennar misbjóða vitsmunum kjósenda. Þar að auki gera þau ekkert til að afla henni atkvæða. Í stað þess að stagast á framgöngu núverandi stjórnar og kröfum um að hún víki væri ráð að stjórnarandstaðan tæki að greina kjósendum frá því hvaða aðrir kostir eru í boði. Kjörtímabilið er jú að verða hálfnað. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Icesave Sif Sigmarsdóttir Skoðanir Mest lesið Örvæntingarfullur maður sker út grasker Þórður Snær Júlíusson Skoðun Ég var barnið sem vildi ekki taka í höndina á kennaranum sínum Fida Abu Libdeh Skoðun Bob Marley og íslenskar kosningar Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Gerum þetta að kosningamáli Ágúst Ólafur Ágústsson Skoðun Stóri grænþvotturinn Heiðrún Lind Marteinsdóttir Skoðun Sjálfstæðisflokkur hækkar kostnað heimilanna Kristrún Frostadóttir Skoðun Hvar er mannúðin? Davíð Sól Pálsson Skoðun Vitsmunaleg vanstilling í boði ungra Sjálfstæðiskvenna Erna Mist Skoðun Kjaftæði Elliði Vignisson Skoðun Falleinkunn fyrrum forseta Vilhjálmur Þorsteinsson,Viktor Orri Valgarðsson Skoðun
Þá byrjar það enn á ný, rammfalskt og taktlaust gólið í afsagnarkór stjórnarandstöðunnar. Um er að ræða endurflutning á verkinu „Jóhanna Sig. á að segja af sér“. Ég tel að ég sé ekki sú eina sem kysi heldur að sitja í gegnumtrekk í hálfkláraðri Hörpunni undir Niflungahring Wagners í flutningi skólahljómsveitar leikskólans Grænuborgar. Þótt ég hafi á mínum yngri árum skráð mig í stjórnmálaflokk, sem ég valdi – eins og skynsömum aktivista ber – eftir því hvar bestu partíin var að finna, er atkvæði mitt allra flokkanna að keppa um. Fyrir mér er pólitík ekki eins og fótbolti þar sem áhangendur styðja lið sitt óháð frammistöðu. Sem gegnheill tækifærissinni krossa ég einfaldlega við þann sem býður best. Því fæ ég með engu móti skilið strategíu stjórnarandstöðunnar. Eins áfjáð og hún virðist í völd gerir hún ekkert til að sýna fram á að hún sé mögulegur staðgengill þeirrar ríkisstjórnar sem nú starfar. Í stað heildstæðrar og ígrundaðrar stefnu miðlar hún litlu öðru til kjósenda en ósk sinni um að komast til valda með upphrópunum um að núverandi stjórn beri að víkja. Ríkisstjórnin á að segja af sér vegna Icesave, aðgerðaleysis, góðs gengis Sjálfstæðisflokksins í einni skoðanakönnun, efnahagsástandsins, af „ýmsum ástæðum“ (skv. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni) og nú síðast vegna þess að Jóhanna Sigurðardóttir réði í starf hjá forsætisráðuneytinu aðila sem ráðgjafar töldu hæfastan til að gegna stöðunni. Hefur stjórnarandstaðan aldrei heyrt dæmisöguna um drenginn sem hrópaði úlfur, úlfur? Vissulega er miður að betur hefði mátt standa að ráðningunni í forsætisráðuneytinu. Það að halda því fram að málið beri vott um að forsætisráðherra, kona sem áratugum saman hefur verið einn ötulasti baráttumaður fyrir jafnrétti kynjanna, láti sig skyndilega jafnréttismál engu varða og eigi að segja af sér er firra. Það þýðir þó ekki að stjórnarandstaðan megi ekki gera sér mat úr uppákomunni. Hvers vegna útlistar hún ekki fyrir okkur kjósendum hvernig hún myndi betrumbæta ráðningarferli innan stjórnsýslunnar kæmist hún til valda? Innantóm köll stjórnarandstöðunnar um afsögn ríkisstjórnarinnar og forsætisráðherra hennar misbjóða vitsmunum kjósenda. Þar að auki gera þau ekkert til að afla henni atkvæða. Í stað þess að stagast á framgöngu núverandi stjórnar og kröfum um að hún víki væri ráð að stjórnarandstaðan tæki að greina kjósendum frá því hvaða aðrir kostir eru í boði. Kjörtímabilið er jú að verða hálfnað.