Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, varð í 25. til 31. sæti á Telenet Trophy mótinu í Belgíu sem lauk í dag eftir að hafa leikið lokahringinn á pari vallarins. Birgir Leifur var þarna að keppa á sínu öðru móti á evrópsku Áskorendamótaröðinni en hann lék hringina fjóra á 288 höggum eða á pari vallarins.
Birgir Leifur byrjaði ekki vel og var þremur höggum yfir pari eftir fyrsta hring. Hann kom sér aftur inn í mótið með því að spila annan daginn á þremur höggum undir pari. Hann lék síðan tvo síðustu hringina á pari.
Birgir Leifur fékk fjóra fugla og fjóra skolla á hringnum í dag en bjargaði parinu með því að fá fugl á lokaholunni.
Birgir Leifur varð í 3. sæti á móti á Ítalíu á dögunum og hann hefur einnig fengið boð um að keppa á næsta móti sem fram fer í Austurríki í næstu viku.
