Sport

Helga Margrét mætt til Kladno og reynir við lágmark á HM í Daegu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helga Margrét Þorsteinsdóttir.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir. Mynd/Arnþór
Ármenningurinn Helga Margrét Þorsteinsdóttir er komin til Kladno í Tékklandi þar sem að hún mun taka þátt í fyrstu sjöþrautinni sinni á þessu ári. Helga Margrét keppir þar í einni sterkustu sjöþrautarkeppni heims og það er til mikils að keppa fyrir bestu sjöþrautarkonu landsins.

Helga Margrét setti Íslandsmet sitt í sjöþraut í Kladno fyrir tveimur árum þegar hún náði 5878 stigum. Að þessu sinni mun hún reyna við lágmarkið á Heimsmeistaramótið í haust sem fram fer í Daegu í Suður-Kóreu.  Það lágmark er 5950 stig en þá vantar ekki mikið upp á að hún nái að brjóta 6000 stiga múrinn.

Helga Margrét er ásamt þjálfara sínum Agne Bergvall á svæðinu og auk hennar keppir æfingafélagi hennar frá Hollandi Jolanda Keizer einnig í þrautinni. Helga er í góðu formi og til alls líkleg samkvæmt fréttatilkynningu frá Vésteini Hafsteinssyni sem hefur yfirumsjón með þjálfun Helgu.

Vésteinn mun fylgjast vel með gangi mála og það má sjá fréttir af gengi Helgu Margrétar inn á síðu hans, www.vesteinn.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×