Menning

Íslenskir höfundar á 30 stöðum í Köln

Um helgina hófst alþjóðleg barna- og unglingabókahátíð sem haldin er árlega í Köln í Þýskalandi. Yfirskrift hátíðarinnar að þessu sinni er „Sagenhaft!“ og munu sex íslenskir rithöfundar lesa í bókasöfnum og skólum í Köln. Hátíðin er skipulögð af SK Stiftung Kultur sem óskaði sérstaklega eftir íslenskum rithöfundum vegna heiðursþátttöku Íslands á Bókasýningunni í Frankfurt í haust.

Hátíðin stendur yfir í tvær vikur. Fyrri vikuna lesa höfundarnir Björk Bjarkadóttir, Kristín Helga Gunnarsdóttir, Gerður Kristný og Kristín Steinsdóttir upp úr verkum sínum á um 30 stöðum í borginni en í þeirri seinni kynna Brian Pilkington og Þórarinn Leifsson bækur sínar.

Dagskrá barnabókahátíðarinnar var kynnt formlega fyrir þýskum blaðamönnum laugardaginn 18. júní. Um leið var sýning um Nonna (Jón Sveinsson) opnuð í Domforum, gegnt dómkirkjunni í Köln, þar sem fjölmargir gestir ganga um daglega. Hulda Sif Hermannsdóttir, fulltrúi Nonnahúss á Akureyri, ávarpaði fundinn og leiddu rithöfundurinn Kristín Steinsdóttir og þýðandinn og Nonnavinurinn Gert Kreutzer hlustendur inn í verk og lífshlaup Nonna, víðlesnasta barnabókahöfundar Íslendinga.

Hátíðin var svo opnuð formlega með uppfærslu Brúðuheima á Gilitrutt, sunnudaginn 19. júní. Leikgerðin er unnin af Bernd Ogrodnik og var verkinu vel tekið, uppselt var á sýninguna og lauk henni með miklu lófaklappi.

Nánari upplýsingar um dagskrána má nálgast hér (á þýsku): www.sk-kultur.de/buchwochen11/#anfang






Fleiri fréttir

Sjá meira


×