Sport

Anton Sveinn og Eygló Ósk stóðu sig vel á EM unglinga

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eygló með silfurverðlaun sín í Belgrad
Eygló með silfurverðlaun sín í Belgrad Mynd/Guðmundur Harðarson
Sundgarparnir Anton Sveinn McKee og Eygló Ósk Gúfstafsdóttir úr Ægi hafa farið á kostum á Evrópumeistaramóti unglinga í sundi í Serbíu. Eygló Ósk fékk silfurverðlaun í 200 metra baksundi en bæði settu þau Íslandsmet í flokki fullorðinna á mótinu.

Besti árangur íslenskra kvenna á EM unglinga fyrir þetta mót var sjötta sæti. Eygló er þar með fyrsti kvenmaðurinn sem kemst á verðlaunapall. Hún synti 200 metra baksundið á tímanum 2.14.95 mínútum sem er Íslandsmet. Fyrra metið átti hún sjálf en þetta er 10. Íslandsmetið sem Eygló setur í flokki fullorðinna.

Anton Sveinn setti Íslandsmet í 800 metra skriðsundi á tímanum 8.15.66 og bætti metið um tæpar fimm sekúndur. Þá bætti Anton tíu ára gamalt Íslandsmet Arnar Arnarsonar í 400 metra fjórsundi í morgun þegar hann synti á tímanum 4.30.15 og bætti gamla metið um tæpar tvær sekúndur. Anton lenti í 13. sæti í báðum greinum.

Anton og Eygló halda nú til móts við A-landslið Íslands í sundi sem er í æfingabúðum í Singapoor. Framundan er heimsmeistaramótið í 50 metra laug í Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×