Enski boltinn

Aquilani verður áfram hjá AC Milan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Umboðsmaður Alberto Aquilani segir það aðeins formsatriði að ganga frá því að leikmaðurinn verði áfram í herbúðum AC Milan þegar að lánssamningur félagsins við Liverpool rennur út.

Aquilani gekk í raðir Liverpool árið 2009 frá Roma fyrir átján milljónir punda en gekk illa að festa sig í sessi hjá liðinu. Hann var í láni hjá Juventus allt síðasta tímabil og var svo lánaður til AC Milan í sumar.

Aquilani þarf að taka þátt í 25 leikjum á tímabilinu svo að honum verði boðinn samningur hjá Milan og telur umboðsmaðurinn Franco Zavaglia það aðeins formsatriði.

„Það er enginn vafi á því að Alberto muni ná þeim skilyrðum sem sett voru í samningi Liverpool og AC Milan,“ sagði hann en Aquilani hefur þótt standa sig vel með AC Milan á leiktíðinni.

„Hann hefur staðið sig vel og ég held að allir geti verið sammála um það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×