Viðskipti innlent

Ætlar ekki að vera bankamaðurinn sem hlustaði ekki

Hafsteinn Hauksson skrifar
"Ég setti mér þá reglu eftir að ég tók við þessu starfi að taka öllum svona hugmyndum vel," segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, um hugmyndir um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi í nýjasta þætti Klinksins.

Slíkar hugmyndir hafa verið uppi víða um heim allt frá því bankakreppan hófst, en efnahags- og viðskiptaráðherra vakti nýverið máls á þeim möguleika hér á landi.

"Ég ætla ekki að vera bankamaðurinn sem hlustaði ekki, svo við hlustum á það sem aðrir hafa að segja," segir Birna

"Fjárfestingabankastarfsemi í íslensku bönkunum er mjög takmörkuð eins og staðan er í dag, en auðvitað er vert að skoða þetta eftir því sem hún vex."

Sumir hafa hent að því gaman að íslensku bankarnir stundi nú fyrst og fremst viðskiptabankastarfsemi sem lýsa megi með 3-6-3 módelinu svokallaða; 3% innlánsvextir, 6% útlánsvextir og forstjórinn er mættur á golfvöllinn klukkan 3.

"Ekki þetta með að mæta á golfvöllinn, ég get alveg sagt þér það," segir Birna spurð hvort Íslandsbanki starfi samkvæmt slíku módeli.

"En auðvitað er stærsta starfsemi bankanna viðskiptabankastarfsemi. Hún hefur breyst úr því að vera lítill hluti, eins og í gömlu bönkunum, í það að vera meginhluti hagnaðar og veltu bankans.

Við vonum samt að markaðir fari hér meira af stað, og við vonum að það sé eitthvað að gerast í Kauphöllinni. Þegar við losnum við gjaldeyrishöftin fer fjárfestingabankastarfsemi og miðlun áfram af stað. Sá hluti bankans á eftir að vaxa, á meðan viðskiptabankahlutinn er frekar stabíll."

Horfa má á viðtalið við Birnu í heild sinni hér á sjónvarpssíðu Vísis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×