Írís Guðmundsdóttir frá Akureyri og Björgvin Björgvinsson frá Dalvík hafa verið valin Skíðafólk ársins 2011 af Skíðasambandi Íslands en bæði hafa þau ákveðið að leggja skíðin á hilluna, Íris vegna meiðsla og Björgvin af fjárhagsástæðum.
Írís Guðmundsdóttir hefur verið fremsta skíðakona landsins undanfarin ár.Á síðasta vetri náði hún sínum besta árangri á sterku alþjóðlegu svigmóti í Noregi þegar hún varð í 2. sæti og fékk 35,86 FIS stig.
Írís keppti fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu á skíðum í Garmisch-Partenkirchen en féll úr leik í fyrri umferð í svigi og síðari umferð í stórsvigi eftir að hafa verið í 55. sæti eftir fyrri umferð.
Í vor varð Íris Íslandsmeistari á skíðum í svigi, stórsvigi og alpatvíkeppni. Hún er í 502. sæti í svigi og 749. sæti í stórsvigi á heimslista Alþjóða skíðasambandsins.
Björgvin Björgvinsson varð fjórfaldur Íslandsmeistari á skíðum á árinu 2011 en síðasta vor vann hann í svigi, stórsvigi, samhliðasvigi og alpatvíkeppni á skíðamóti Íslands. Björgvin varð einnig bikarmeistari Skíðasambands Íslands.
Björgvin er í 73. sæti í svigi á heimslista Alþjóða skíðasambandsins en hann komst hæst í 51. sæti á árinu. Björgvin tilkynnti það í sumar að hann ætlaði að leggja skíða á hilluna vegna þess hve mikill fjárhagslegur kostnaður það er fyrir afreksmann á skíðum að halda sér í fremstu röð.
Íris og Björgvin valin skíðafólk ársins - bæði búin að leggja skíðin á hilluna
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
