Farveginn vantar Ólafur Þ.Stephensen skrifar 12. janúar 2011 06:00 Í Fréttablaðinu í gær birtist fróðlegt yfirlit um undirskriftasafnanir, þar sem tugir þúsunda hafa sett nafn sitt á blað eða vefsíðu til að tjá afstöðu sína til pólitískra deilumála. Sumar þessar undirskriftasafnanir hafa haft mikil áhrif. Sú sem fram fór undir merkjum Varins lands árið 1974 átti til dæmis áreiðanlega ríkan þátt í að þáverandi ríkisstjórn hvarf frá áformum um að varnarliðið færi úr landi. Aðrar, eins og þegar rúmlega 34.000 manns kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn árið 1992, höfðu engin áhrif á afgreiðslu eða niðurstöðu málsins. Nú hafa tugir þúsunda manna skrifað undir bænaskjal um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum og að hætt verði við sölu HS orku til Magma Energy, ef rétt er skilið. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fagnaði undirskriftasöfnuninni á Facebook-síðu sinni í gær og lagði hana út sem stuðning við þjóðareign á auðlindum. Forsætisráðherrann sagði hins vegar ekkert um það hvort henni fyndist að verða ætti við þessari ósk. Og það er kannski engin furða. Undanfarin ár hefur stuðningur farið mjög vaxandi við að kostir beins lýðræðis verði nýttir og ýmis mál lögð fyrir almenning í almennum atkvæðagreiðslum. Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan á lýðveldistímanum, fór fram í fyrra þegar yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hafnaði Icesave-samningnum, sem þá hafði verið gerður. Þá höfðu yfir 50.000 manns krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskriftum, en það var þó ekki beinlínis vegna þeirrar kröfu sem efnt var til atkvæðagreiðslunnar, enda engin ákvæði í lögum eða stjórnarskrá um það hvernig ætti að fara með slíka undirskriftalista, heldur vegna þess mats forseta Íslands að því máli bæri að vísa til þjóðarinnar. Forsetinn hafði tekið sambærilega ákvörðun árið 2004, einnig að undangenginni undirskriftasöfnun, um að neita að staðfesta ný fjölmiðlalög. Þáverandi ríkisstjórn og þingmeirihluti ákváðu hins vegar að draga lögin til baka og engin atkvæðagreiðsla var haldin. Þannig er það ekki ávísun á þjóðaratkvæðagreiðslu, þótt margir kjósendur skori á forsetann að neita að staðfesta lög. Kjarni málsins er sá að í stjórnarskrá og löggjöf Íslands vantar enn öll ákvæði um það hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram, til dæmis hverjir og hversu margir geti krafizt hennar, hvers konar mál eigi erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvernig beri að orða tillöguna sem greiða eigi atkvæði um, hvaða kröfur eigi að gera til undirskriftalista ef þeim er til að dreifa, hvernig eigi að sannreyna undirskriftirnar og þar fram eftir götunum. Eðlilegast hlýtur að vera að um þetta gildi skýrar reglur, þannig að það sé ekki lagt í mat eins manns hvort ástæða sé til að vísa málum í þjóðarakvæði. Í ríkjum þar sem hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum er þetta fyrirkomulag með mjög mismunandi hætti og margvísleg sjónarmið koma við sögu. Það er eitt mikilvægasta verkefni stjórnlagaþingsins, sem senn kemur saman, að móta farveginn sem kröfur almennings um almennar atkvæðagreiðslur eiga að fara eftir. Fyrr en því verki er lokið, er ótímabært að taka ákvarðanir um slíkar atkvæðagreiðslur. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Ólafur Stephensen Mest lesið Á að banna rauða jólasveininn? Stefán Vagn Stefánsson Skoðun Með baunabyssu í kennaraverkfalli Ólafur Hauksson Skoðun Munu bara allir fá dánaraðstoð? Bjarni Jónsson Skoðun Það þarf meiri töffara í okkur Davíð Már Sigurðsson Skoðun Treystir þú konum? Hópur 72 kvenna úr sex stjórnmálaflokkum Skoðun Unga fólkið og frjósemi María Rut Baldursdóttir,Sigríður Auðunsdóttir Skoðun Mannsæmandi lífeyrislaun strax Guðmundur Ingi Kristinsson Skoðun Hver tilheyrir hverjum? Kristín Davíðsdóttir Skoðun Tryggjum frelsi til handfæraveiða – eflum sjávarbyggðirnar Eyjólfur Ármannsson Skoðun Sagnaarfur Biblíunnar Sigurvin Lárus Jónsson Skoðun
Í Fréttablaðinu í gær birtist fróðlegt yfirlit um undirskriftasafnanir, þar sem tugir þúsunda hafa sett nafn sitt á blað eða vefsíðu til að tjá afstöðu sína til pólitískra deilumála. Sumar þessar undirskriftasafnanir hafa haft mikil áhrif. Sú sem fram fór undir merkjum Varins lands árið 1974 átti til dæmis áreiðanlega ríkan þátt í að þáverandi ríkisstjórn hvarf frá áformum um að varnarliðið færi úr landi. Aðrar, eins og þegar rúmlega 34.000 manns kröfðust þjóðaratkvæðagreiðslu um EES-samninginn árið 1992, höfðu engin áhrif á afgreiðslu eða niðurstöðu málsins. Nú hafa tugir þúsunda manna skrifað undir bænaskjal um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um eignarhald á orkuauðlindum og að hætt verði við sölu HS orku til Magma Energy, ef rétt er skilið. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fagnaði undirskriftasöfnuninni á Facebook-síðu sinni í gær og lagði hana út sem stuðning við þjóðareign á auðlindum. Forsætisráðherrann sagði hins vegar ekkert um það hvort henni fyndist að verða ætti við þessari ósk. Og það er kannski engin furða. Undanfarin ár hefur stuðningur farið mjög vaxandi við að kostir beins lýðræðis verði nýttir og ýmis mál lögð fyrir almenning í almennum atkvæðagreiðslum. Fyrsta þjóðaratkvæðagreiðslan á lýðveldistímanum, fór fram í fyrra þegar yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar hafnaði Icesave-samningnum, sem þá hafði verið gerður. Þá höfðu yfir 50.000 manns krafizt þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskriftum, en það var þó ekki beinlínis vegna þeirrar kröfu sem efnt var til atkvæðagreiðslunnar, enda engin ákvæði í lögum eða stjórnarskrá um það hvernig ætti að fara með slíka undirskriftalista, heldur vegna þess mats forseta Íslands að því máli bæri að vísa til þjóðarinnar. Forsetinn hafði tekið sambærilega ákvörðun árið 2004, einnig að undangenginni undirskriftasöfnun, um að neita að staðfesta ný fjölmiðlalög. Þáverandi ríkisstjórn og þingmeirihluti ákváðu hins vegar að draga lögin til baka og engin atkvæðagreiðsla var haldin. Þannig er það ekki ávísun á þjóðaratkvæðagreiðslu, þótt margir kjósendur skori á forsetann að neita að staðfesta lög. Kjarni málsins er sá að í stjórnarskrá og löggjöf Íslands vantar enn öll ákvæði um það hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram, til dæmis hverjir og hversu margir geti krafizt hennar, hvers konar mál eigi erindi í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvernig beri að orða tillöguna sem greiða eigi atkvæði um, hvaða kröfur eigi að gera til undirskriftalista ef þeim er til að dreifa, hvernig eigi að sannreyna undirskriftirnar og þar fram eftir götunum. Eðlilegast hlýtur að vera að um þetta gildi skýrar reglur, þannig að það sé ekki lagt í mat eins manns hvort ástæða sé til að vísa málum í þjóðarakvæði. Í ríkjum þar sem hefð er fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum er þetta fyrirkomulag með mjög mismunandi hætti og margvísleg sjónarmið koma við sögu. Það er eitt mikilvægasta verkefni stjórnlagaþingsins, sem senn kemur saman, að móta farveginn sem kröfur almennings um almennar atkvæðagreiðslur eiga að fara eftir. Fyrr en því verki er lokið, er ótímabært að taka ákvarðanir um slíkar atkvæðagreiðslur.