Sport

Keppni hafin á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar

Heiðbjört Arna Höskuldsdóttir, keppandi í listhlaupi, ásamt þjálfara sínum, Svetlana Akhmerova.
Heiðbjört Arna Höskuldsdóttir, keppandi í listhlaupi, ásamt þjálfara sínum, Svetlana Akhmerova.

Í dag hófst keppnin á Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Liberec í Tékklandi. Í fyrsta sinn á ólympískum leikum átti Ísland keppanda í skautagrein, eða listhlaupi á skautum.  Heiðbjört Arney Höskuldsdóttir keppti í stutta prógramminu sem er fyrri hluti keppninnar hjá henni.  Fékk hún 24,90 stig fyrir þennan hluta og er í 28. sæti af 30 keppendum.

Í alpagreinum kepptu stúlkurnar í dag í stórsvigi.  96 stúlkur voru skráðar til leiks og stóð Freydís Halla Einarsdóttir sig best okkar keppenda er hún lenti í 40. sæti á tímanum 1:50,33 (108,42 FIS punktar).  Helga María Vilhjálmsdóttir hafnaði í 42. sæti á 1:51,84 (121,45 FIS punktar), Lovísa Mjöll Guðmundsdóttir lenti í 45. sæti á tímanum 1:53,59 (136,56 FIS punktar) og Erla Ásgeirsdóttir í 49. sæti á 1:54,87 (147,61 FIS punktar).  Alls luku 74 stúlkur keppni í dag.

Þá var keppt í 10 km. skíðagöngu með hefðbundni aðferð og átti Ísland þar tvo keppendur.  Sindri Freyr Kristinsson lenti í 81. sæti á tímanum 39:28.9 en Gunnar Birgisson lauk ekki keppni.  Alls voru 85 keppendur skráðir til leiks og luku 82 þeirra keppni.

Annars hefur heppnin ekki fylgt hópnum þar sem flest skíði urðu viðskila við hópinn í Kaupmannahöfn á laugardaginn var.  Var um að kenna bilun í farangursbeltum á Kastrup flugvelli.  Freydís varð þannig að keppa á lánsskíðum og eins fengu strákarnir í skíðagöngunni lánuð skíði, skó og stafi. 

Reiknað er með að skíðin skili sér til Tékklands í kvöld en á morgun tekur við keppni í stórsvigi hjá strákum og Sindri og Gunnar keppa í sprettgöngu með hefðbundinni aðferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×