Verðmætaskáld Guðmundur Andri Thorsson skrifar 7. febrúar 2011 00:01 Á köflum var beinlínis óþægilegt að horfa á viðtal við Kristján Gunnarsson verkalýðsleiðtoga í Keflavík í Kastljósi á dögunum. Helgi Seljan stóð sig reyndar með prýði en það er aldrei gaman að horfa á menn stadda í miðri martröð. Kristján orkaði á mann eins og vænn maður en grandalaus; vissulega skrifaði hann undir fáránlegan starfslokasamning við fyrrverandi sparisjóðsstjóra í Keflavík þegar sá hefði að réttu lagi sloppið vel með að vera rekinn með skömm en samt finnst manni það ekki ná nokkurri átt að Kristján eigi að bera alla syndabyrði höfðingjanna í Keflavík á sínum herðum, þótt breiðar séu. Hann kemur þarna seint að málum og enginn grunar hann um að hafa látið greipar sópa um fjármuni sparisjóðsins. Manni virðist sem sök hans sé einkum hlífisemi við aðra í litlu samfélagi - og að hafa treyst mönnum sem hann átti ekki að treysta. Og fær nú skellinn; situr uppi með alla sök og alla skömm af þeim ótrúlegu gjörningum sem virðast hafa átt sér stað í Keflavík eftir að herinn fór og menn hófu „verðmæta-sköpun" - verðmætaskáldskap. "Helstu strákarnir í götunni“Sigrún Davíðsdóttir, okkar besti, og kannski eini fréttamaður um viðskiptamál - enda lærði hún íslensku í háskólanum en ekki viðskiptafræði - minnti á það í pistli í Speglinum á dögunum að meira að segja Fjármálaeftirlitið - sem var ekki beinlínis hneyklunargjarnt árið 2008 - hafi gert svarta skýrslu það ár um Sparisjóð Keflavíkur, þar sem fram kemur ýmislegt um óeðlilegar fjárveitingar til „helstu strákanna í götunni" - meðal annars sonar sparisjóðsstjórans. Ekkert hafi hins vegar gerst í kjölfarið. Allir virðast þessir kónar ætla að sleppa með skrekkinn - og ránsfenginn - rétt eins og aðrir þeir sem mergsugu sparisjóðina víða um land. Næstum því daglega fáum við fregnir af fjárhagslegum óhæfuverkum á undanförnum árum, og jafnvel enn. Næstum á hverri opnu í DV er sagt frá gerningum sem maður myndi taka andköf af hneykslun yfir ef maður væri ekki að kafna. Eilífar fréttir af glæpum sem menn virðast komast upp með óáreittir gera andrúmsloftið í samfélaginu óbærilegt. Kannski er ekki margt í réttarkerfi Bandaríkjanna til eftirbreytni - en þó voru Enron-menn og endurskoðendur þeirra hjá Arthur Andersen snarlega hnepptir í varðhald með vel mynduðum handtökum, áður en byrjað var að efna til málsins á hendur þeim. Slíkt hið sama mátti reyna parið sem náði fúlgum fjár út úr milljarða-kjána og tónskáldi sem trúði á samsæri katólskrar leynimunkareglu á hendur sér. Ekkert slíkt hér. Sérstakur saksóknari tekur af og til rokur í yfirheyrslum, en af einhverjum ástæðum njóta sparisjóðirnir friðhelgi. Ekki hvarflar að neinum að gera „eigur" manna upptækar. Því líkti góður vinur minn við það að komið væri að mönnum í bankaráni og þeir stöðvaðir við þá iðju að sópa verðmætum ofan í poka sína - en mættu samt eiga það sem komið væri í pokana. Skipbrot stefnuOg svo væri Kristján Gunnarsson tekinn í gegn í sjónvarpinu. Kastljósviðtalið við Kristján var ekki bara hans prívatmartröð heldur horfðum við þarna á skipbrot þeirrar stéttasamvinnustefnu sem verkalýðshreyfingin hefur rekið hér á landi alveg frá því um 1980, og lýsir sér meðal annars í því að æ oftar er talað um „aðila vinnumarkaðarins" sem eina órofa fylkingu með sömu hagsmuni og sömu hugsjónir. Atvinnurekendur reyndust ekki standa undir því mikla trausti sem verkalýðshreyfingin hefur auðsýnt þeim. Þeim hefur ekki tekist vel að ávaxta fé launafólks í lífeyrissjóðunum, heldur töpuðust þar stórar fjárhæðir í þeirri alheimsdellu sem íslenska útrásin var. Og alltaf voru verkalýðsforingjarnir að reyna að vera ábyrgir, sáu um að halda kaupkröfum niðri, sáu til þess að verðbólga lækkaði, sáu til þess að hjól atvinnulífsins snerust, og svo framvegis. Og á meðan voru atvinnurekendur upp til hópa delerandi - kaupandi kvóta hver af öðrum á uppsprengdu verði, kaupandi bílaumboð, tuskubúðir, hótel í útlöndum, stofnandi eignarhaldsfélög, tæmandi banka… Og enn er ekki runnið af þeim. Hófsömum kröfum verkalýðshreyfingar mæta þeir með kröfum á hendur stjórnvöldum um eilífan einkaaðgang útvegsmanna að fiskimiðum landsins - sem þeir eru fyrir löngu búnir að veðsetja til andskotans án þess að eiga þau. En verkalýðsforingjar í öngum sínum geta tekið undir næst þegar þeir heyra þennan gamla rússneska slagara: Krónulaus ég kúri í trekki kjúkur kreistandi / Auðvaldinu er ekki ekki / ekki treystandi. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Guðmundur Andri Thorsson Mest lesið Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun Af hverju eru kennarar að fara í verkfall? Anton Már Gylfason Skoðun Val Vigdísar Skúli Ólafsson Skoðun Hefjum aðildarviðræður við Bandaríkin Einar Jóhannes Guðnason Skoðun Árið 1975 er að banka Rakel Linda Kristjánsdóttir Skoðun Eru tengsl milli Úkraínustríðsins og breyttrar stöðu Grænlands? Hilmar Þór Hilmarsson Skoðun Kennarar segja: „Nóg komið!“ – Verkfall fyrir virðingu og verðskulduð réttindi Jónas Sen Skoðun Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun Friður á jörðu Þröstur Friðfinnsson Skoðun Hlýnun jarðar mun ekki valda heimsendi Sæunn Kjartansdóttir Skoðun
Á köflum var beinlínis óþægilegt að horfa á viðtal við Kristján Gunnarsson verkalýðsleiðtoga í Keflavík í Kastljósi á dögunum. Helgi Seljan stóð sig reyndar með prýði en það er aldrei gaman að horfa á menn stadda í miðri martröð. Kristján orkaði á mann eins og vænn maður en grandalaus; vissulega skrifaði hann undir fáránlegan starfslokasamning við fyrrverandi sparisjóðsstjóra í Keflavík þegar sá hefði að réttu lagi sloppið vel með að vera rekinn með skömm en samt finnst manni það ekki ná nokkurri átt að Kristján eigi að bera alla syndabyrði höfðingjanna í Keflavík á sínum herðum, þótt breiðar séu. Hann kemur þarna seint að málum og enginn grunar hann um að hafa látið greipar sópa um fjármuni sparisjóðsins. Manni virðist sem sök hans sé einkum hlífisemi við aðra í litlu samfélagi - og að hafa treyst mönnum sem hann átti ekki að treysta. Og fær nú skellinn; situr uppi með alla sök og alla skömm af þeim ótrúlegu gjörningum sem virðast hafa átt sér stað í Keflavík eftir að herinn fór og menn hófu „verðmæta-sköpun" - verðmætaskáldskap. "Helstu strákarnir í götunni“Sigrún Davíðsdóttir, okkar besti, og kannski eini fréttamaður um viðskiptamál - enda lærði hún íslensku í háskólanum en ekki viðskiptafræði - minnti á það í pistli í Speglinum á dögunum að meira að segja Fjármálaeftirlitið - sem var ekki beinlínis hneyklunargjarnt árið 2008 - hafi gert svarta skýrslu það ár um Sparisjóð Keflavíkur, þar sem fram kemur ýmislegt um óeðlilegar fjárveitingar til „helstu strákanna í götunni" - meðal annars sonar sparisjóðsstjórans. Ekkert hafi hins vegar gerst í kjölfarið. Allir virðast þessir kónar ætla að sleppa með skrekkinn - og ránsfenginn - rétt eins og aðrir þeir sem mergsugu sparisjóðina víða um land. Næstum því daglega fáum við fregnir af fjárhagslegum óhæfuverkum á undanförnum árum, og jafnvel enn. Næstum á hverri opnu í DV er sagt frá gerningum sem maður myndi taka andköf af hneykslun yfir ef maður væri ekki að kafna. Eilífar fréttir af glæpum sem menn virðast komast upp með óáreittir gera andrúmsloftið í samfélaginu óbærilegt. Kannski er ekki margt í réttarkerfi Bandaríkjanna til eftirbreytni - en þó voru Enron-menn og endurskoðendur þeirra hjá Arthur Andersen snarlega hnepptir í varðhald með vel mynduðum handtökum, áður en byrjað var að efna til málsins á hendur þeim. Slíkt hið sama mátti reyna parið sem náði fúlgum fjár út úr milljarða-kjána og tónskáldi sem trúði á samsæri katólskrar leynimunkareglu á hendur sér. Ekkert slíkt hér. Sérstakur saksóknari tekur af og til rokur í yfirheyrslum, en af einhverjum ástæðum njóta sparisjóðirnir friðhelgi. Ekki hvarflar að neinum að gera „eigur" manna upptækar. Því líkti góður vinur minn við það að komið væri að mönnum í bankaráni og þeir stöðvaðir við þá iðju að sópa verðmætum ofan í poka sína - en mættu samt eiga það sem komið væri í pokana. Skipbrot stefnuOg svo væri Kristján Gunnarsson tekinn í gegn í sjónvarpinu. Kastljósviðtalið við Kristján var ekki bara hans prívatmartröð heldur horfðum við þarna á skipbrot þeirrar stéttasamvinnustefnu sem verkalýðshreyfingin hefur rekið hér á landi alveg frá því um 1980, og lýsir sér meðal annars í því að æ oftar er talað um „aðila vinnumarkaðarins" sem eina órofa fylkingu með sömu hagsmuni og sömu hugsjónir. Atvinnurekendur reyndust ekki standa undir því mikla trausti sem verkalýðshreyfingin hefur auðsýnt þeim. Þeim hefur ekki tekist vel að ávaxta fé launafólks í lífeyrissjóðunum, heldur töpuðust þar stórar fjárhæðir í þeirri alheimsdellu sem íslenska útrásin var. Og alltaf voru verkalýðsforingjarnir að reyna að vera ábyrgir, sáu um að halda kaupkröfum niðri, sáu til þess að verðbólga lækkaði, sáu til þess að hjól atvinnulífsins snerust, og svo framvegis. Og á meðan voru atvinnurekendur upp til hópa delerandi - kaupandi kvóta hver af öðrum á uppsprengdu verði, kaupandi bílaumboð, tuskubúðir, hótel í útlöndum, stofnandi eignarhaldsfélög, tæmandi banka… Og enn er ekki runnið af þeim. Hófsömum kröfum verkalýðshreyfingar mæta þeir með kröfum á hendur stjórnvöldum um eilífan einkaaðgang útvegsmanna að fiskimiðum landsins - sem þeir eru fyrir löngu búnir að veðsetja til andskotans án þess að eiga þau. En verkalýðsforingjar í öngum sínum geta tekið undir næst þegar þeir heyra þennan gamla rússneska slagara: Krónulaus ég kúri í trekki kjúkur kreistandi / Auðvaldinu er ekki ekki / ekki treystandi.
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun
Viljum við að erlendir milljarðamæringar setji einhliða leikreglurnar í almannarýminu okkar? Elfa Ýr Gylfadóttir Skoðun
Hafa fyrrum æskunnar eftirlætisbörn og nú ellinnar olnbogabörn fengið nóg? Gunnar Ármannsson Skoðun