Sport

Sölvi og Fjóla Signý Íslandsmeistarar í fjölþrautum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sölvi Guðmundsson.
Sölvi Guðmundsson. Mynd/Heimasíða ÍSÍ
Sölvi Guðmundsson úr Breiðabliki og Fjóla Signý Hannesdóttir úr HSK urðu í dag Íslandsmeistarar í fjölþrautum á Meistaramótinu í Laugardalshöll. Sölvi var sá eini sem kláraði sjöþrautina hjá körlunum en Fjóla Signý vann fimmtarþrautina með 537 stigum.

Sölvi Guðmundsson fékk 4362 stig en hann fékk flest stig fyrir 1000 metra hlaup (2:50,60/759) og hástökk (1.93/740 stig). Sölvi hljóp 1000 metrana einn því þá voru allir andstæðingar hans hættir keppni.

Fjóla Signý Hannesdóttir fékk 3377 stig eða 537 stigum meira en Helga Þráinsdóttir úr ÍR. Fjóla fékk mest fyrir 60 metra hlaup (09,36/836 stig) og 800 metra hlaup 2:25,14/755 stig)

ÍR-ingarnir Einar Daði Lárusson og Kristín Birna Ólafsdóttir voru sigurstranglegust fyrir keppnina en þau gerðu bæði dýrkeypt mistök í dag. Einar Daði felldi byrjunarhæði í stangastökki og Kristín Birna gerði þrisvar ógilt í langstökki. Þau tóku hvorug þátt í lokagreininni en urðu samt í 2. sæti (Einar) og 3. sæti (Kristín).

Arna Stefanía Guðmundsdóttir úr ÍR varð Íslandsmeistari í flokki stúlkna 17 ára og yngri, Sindri Hrafn Guðmundsson úr Breiðabliki varð Íslandsmeistari í flokki pilta 17 ára og yngri og Ingi Rúnar Kristinsson úr Breiðablik varð Íslandsmeistari í flokki pilta 18 til 19 ára. Blikar unnu því þrefaldan sigur á mótinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×