Sport

Helga Margrét kastaði kúlunni í fyrsta sinn yfir fimmtán metra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helga Margrét Þorsteinsdóttir sýnir árangur sinn í dag.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir sýnir árangur sinn í dag.
Helga Margrét Þorsteinsdóttir úr Ármanni bætti Íslandsmet ungkvenna (22 ára og yngri) í kúluvarpi á móti í Gautaborg í Svíþjóð í dag þegar hún kastaði kúlunni 15.01 metra.

Helga ætlaði að keppa í fimmtarþraut innanhúss á sænska meistaramótinu í Norrköping á morgun en fékk smá eymsli í lærið á þriðjudag og hásin á miðvikudag og ákvað að hafa allan varann á og bíða með þrautina.

„Þessi eymsli sem Helga fékk í vikunni eru ekki alvarleg heldur var ákveðið að taka enga áhættu þar sem Helga hefur verið heil síðan í september og mikilvægt að það haldist svo. Hún er aftur á móti komin í mjög gott form og leiðinlegt að hún gat ekki verið með í þrautinni," segir í fréttatilkynningu frá Vésteini Hafsteinssyni.

Helga mun keppa á nýjan leik í kúluvarpi í Kaupmannahöfn á þriðjudag áður en hún fer heim aftur á fimmtudag.

„Það verður tekin ákvörðun á mánudag um það hvort að hún reynir sig við aðra þraut eftir eina til tvær vikur þar sem hún er í formi að bæta Íslandmetið um ca. 200 stig og er það freistandi ef hún nær sér af þessum eymslum sem hrjáðu hana í vikunni. Það myndi líka gefa henni tækifæri á að keppa á EM í París í Mars, skrifar Vésteinn í fréttatilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×